Enski boltinn

Tveir Everton-menn en enginn Gylfi á lista yfir þá bestu fyrir utan topp sex

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur komið að flestum mörkum Everton á tímabilinu.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur komið að flestum mörkum Everton á tímabilinu. vísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson er ekki á lista fótboltatímaritsins Four Four Two yfir fimmtán bestu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar sem ekki spila með einu af sex efstu liðunum.

Úttektin úr nýjasta heftinu er komin á vef tímaritsins en þar er minnst á Gylfa í formála. Talað er um að margir frábærir leikmenn spili utan efstu sex og þeir séu svo góðir að leikmenn eins og Gylfi, Jordan Pickford, Jamed Maddison og Callum Wilson komist ekki heldur á listann.

Tveir samherja Gylfa hjá Everton eru á listanum en bakvörðurinn Lucas Digne er í tólfta sæti og brasilíski framherjinn Richarlison er í níunda sæti listans.

Richarlison, sem er framherji, er búinn að skora tíu mörk á tímabilinu og gefa eina stoðsendingu en miðjumaðurinn Gylfi er búinn að skora ellefu deildarmörk og gefa þrjár stoðsendingar og koma því að fjórtán mörkum með beinum hætti. Valið er því athyglivert.

Gylfi Þór Sigurðsson er bestur í Everton þegar horft er á tölfræðina.vísir/getty
Úttekt blaðamannsins Mark White byggir að stærstu leyti á skoðun hans en aðeins er minnst á mörk og stoðsendingar þegar kemur að tölfræði.

Þegar að rýnt er enn frekar í tölfræðina eins og í leikmannastyrkleikalista Sky Sports sem fjallað var um í gær kemur í ljós að Gylfi er næst besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar af þeim leikmönnum sem ekki spila með einu af sex efstu liðunum (City, United, Arsenal, Tottenham, Liverpool og Chelsea).

Aðeins Felipe Anderson, leikmaður West Ham, hefur safnað fleiri stigum á styrkleikalista Sky Sports sem tekur mið af 34 tölfræðiþáttum. Gylfi er í 13. sæti yfir alla leikmenn deildarinnar, vel á undan leikmönnum á borð við David Silva og Christian Eriksen.

Á styrkleikalista Sky Sports er Gylfi besti leikmaður Everton með 43,821 stig en Lucas Digne er í 23. sæti, tíu sætum neðar en Gylfi með 39,401 stig eða 4.000 stigum minna en Gylfi. Richarlison er síðan í 44. sæti með 34,631 stig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×