Körfubolti

Nítján ár liðin frá líklega flottustu afmælisframmistöðu NBA-sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það réð eiginlega enginn við Shaquille O'Neal á þessum árum.
Það réð eiginlega enginn við Shaquille O'Neal á þessum árum. Getty/Stephen Dunn
Shaquille O'Neal heldur upp á 47 ára afmælið sitt í dag en fyrir nítján árum síðan hélt hann upp á afmælið sitt með mjög eftirminnilegum hætti.

6. mars 2000 bauð nefnilega 28 ára gamall Shaquille O'Neal upp á svakalegan leik með Los Angeles Lakers liðinu á móti nágrönnunum í Los Angeles Clippers.





Shaquille O'Neal var með 61 stig og 23 fráköst í þessum leik sem Los Angeles Lakers liðið vann með 20 stigum 123-103.

O'Neal nýtti 24 af 35 skotum sínum (69 prósent) og setti niður 13 af 22 vítum (59 prósent). Hann spilaði í 45 mínútur og var einnig með 3 stoðsendingar og 7 af 23 fráköstum hans voru í sókn.

Næststigahæstur í Los Angeles Lakers liðinu var Kobe Bryant með 22 stig á 29 mínútum. Kobe Bryant átti einmitt stoðsendinguna á Shaq þegar O'Neal fór yfir 60 stigin í fyrsta skiptið á ferlinum.

Leikmenn Los Angeles Clippers, sem þá voru með eitt lélegasta lið deildarinnar, réðu ekkert við Shaq í þessum leik.

Shaquille O'Neal var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar þetta tímabil og varð síðan NBA-meistari í fyrsta sinn seinna um sumarið. O'Neal varð einnig NBA-meistari með Lakers 2001 og 2002 auk þess að vinna titilinn með Miami Heat 2006.

Tímabilið 1999-2000, þar sem Shaquille O'Neal var með 29,7 stig og 13,6 fráköst að meðaltali, var aftur á móti eina tímabilið þar sem Shaq var valinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessari mögnuðu framistöðu Shaquille O'Neal fyrir nítján árum síðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×