Handbolti

Ásbjörn: Birkir fór að sofa klukkan þrjú í nótt

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Ásbjörn var markahæstur FH-inga með sjö mörk.
Ásbjörn var markahæstur FH-inga með sjö mörk. vísir/daníel
Ásbjörn Friðriksson, spilandi aðstoðarþjálfari FH, þakkar stuðningsmönnum liðsins frábæran stuðning í dag.

„Við mættum til leiks eins og við undirbjuggum okkur og vorum 100% í öllum aðgerðum. Mér fannst við vera með leikinn allan tímann en Valsararnir eru stórhættulegir en við náðum að halda þessu í lokin,“ sagði Ásbjörn eftir leik.

„Þetta er frábær sigur og það er svo sannarlega gaman að vera hluti af liðinu sem vinnur fyrsta bikarmeistara titilinn í 25 ár í sögu FH.“

FH hefur leikið til úrslita í síðustu tveimur úrslitakeppnum en tapað þeim báðum. Ási segir að leikmenn hafi lært af þeirri reynslu og að það hafi hjálpað þeim enn frekar í dag að hafa þurft að horfa á önnur lið lyfta bikar fyrir framan þá

„Það sveið mikið þessi tvö töp í úrslitunum síðustu ár en við erum búnir að læra af því og það hjálpaði okkur bara í dag. Þrátt fyrir að hafa misst einhverja í vor og fengið nýja menn inn þá býr ákveðin reynsla í liðinu sem hjálpaði okkur yfir erfiðasta hjallan í dag“ sagði Ási en hann þakkar reynslunni sem liðið býr yfir en einnig þakkar hann stuðningnum sem liðið fékk í dag

„Ég þakka liðinu, þjálfarateyminu, sjúkraþjálfaranum sem kom okkur í gegnum gærkvöldið og morgunin og að lokum frábærum stuðningsmönnum“

Birkir Fannar Bragason, markvörður liðsins, var valinn mikilvægasti leikmaður úrslita helgarinnar, hann var magnaður í leiknum og Ási var heldur betur ánægður með undirbúninginn hjá sínum manni.

„Birkir fór að sofa klukkan 3 í nótt eftir að hafa horft á einhverja 3 leiki með Val, það er eins og Dóri segir, þetta er yfirvinna sem þú færð alltaf greidda,“ sagði Ásbjörn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×