Íslenski boltinn

Fótboltamaðurinn Bjarki Már | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
HK og Breiðablik mættust í styrktarleik fyrir Bjarka Má á síðasta ári.
HK og Breiðablik mættust í styrktarleik fyrir Bjarka Má á síðasta ári.
Barátta Bjarka Más Sigvaldasonar við illvígt krabbamein hefur vakið þjóðarathygli en hann þykir hafa tekist á við veikindi sín af miklu æðruleysi og hugrekki.

Bjarki var á sínum tíma í hópi efnilegustu fótboltamanna landsins. Hann lék með yngri landsliðum Íslands og fór á reynslu til erlendra félaga.

Sumarið 2004 var Bjarki, þá aðeins 17 ára, fastamaður í liði HK sem endaði í 3. sæti B-deildarinnar og komst í undanúrslit bikarkeppninnar.

Bjarki var hluti af fyrsta Íslandsmeistaraliði HK sumarið 2001. Fjórði flokkur HK varð þá Íslandsmeistari eftir sigur á Fjölni í úrslitaleik. Meðal samherja Bjarka í þessu liði má nefna Rúrik Gíslason, landsliðs- og atvinnumann í fótbolta.

Meiðsli settu stórt strik í reikninginn á fótboltaferli Bjarka og 2012 greindist hann svo með krabbamein sem hann hefur barist við síðustu árin.

Bræðurnir Vilhjálmur og Þórhallur Siggeirssynir tóku sig til og bjuggu til myndband þar sem farið er yfir fótboltaferil Bjarka. Þar er m.a. rætt við samherja og mótherja hans úr yngri flokkunum sem og þjálfara hans, bæði hjá HK og yngri landsliðunum. Í myndbandinu má einnig sjá brot úr leikjum með Bjarka í yngri flokkunum.

Vilhjálmur er framleiðandi íþróttaefnis á RÚV og Þórhallur er þjálfari meistaraflokks karla hjá Þrótti R. Þeir Bjarki eru jafnaldrar og léku saman í yngri flokkum meistaraflokki HK.

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×