Innlent

Nemendur sárir og reiðir vegna skemmdarverka sem unnin voru á Kvennaskólanum

Birgir Olgeirsson skrifar
Þessi skilaboð biðu nemendum skólans í morgun.
Þessi skilaboð biðu nemendum skólans í morgun. Aðsend
Skemmdarverk voru unnin á húsakynnum Kvennaskólans í Reykjavík í nótt. Búið var að spreyja ókvæðisorðum á byggingar skólans, þar á meðal „FUCK YOU!“ og „KVENNÓ LESSUR“.

„Það er mikil kvenfyrirlitning í þessum skilaboðum og við höfum áhyggjur af þessum hugsunarhætti,“ segir Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans.

Mögulega sé um einhverskonar framhaldsskólahúmor að ræða sem skólameistarinn segist hafa engan skilning á. Í gegnum tíðina hafi ýmis skemmdarverk verið unnin á byggingum skólann sem hafði einhverja tengingu við keppni á milli skóla en Hjalti segist ekki gera sér grein fyrir því hvort að þetta tilvik tengist slíku.

„Maður kemur kannski til vinnu á morgnanna og þá er búið að grýta eggjum eða spreyja á skólann,“ segir Hjalti.

Hann á eftir að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum til að reyna að fá úr því skorið hverjir voru þarna á ferð en það er í skoðun hvort málið verði tilkynnt til lögreglu. Vanalega er haft samband við stjórnendur annarra framhaldsskóla og þeir aðstoða hvor aðra við að reyna að uppræta svona hugsunarhætti.

„Þeim var mjög brugðið,“ segir Hjalti spurður út í viðbrögð nemenda þegar þeir sáu þessi skilaboð í morgun.

„Þeim finnst þetta mjög niðurlægjandi þetta er svo langt frá því að þau hugsi á þessum nótum. Þau er sár og reið.“

Voru skemmdarverkin framin á miðbæjarskólanum og gamla skólanum. Hann segir að verið sé að hreinsa húsakynnin eins og hægt er að líkast til þurfi að mála yfir þetta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×