Enski boltinn

„Liverpool gæti ekki mætt Manchester United á verri tíma“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jesse Lingard og Virgil van Dijk í baráttu í fyrri leik liðanna.
Jesse Lingard og Virgil van Dijk í baráttu í fyrri leik liðanna. EPA/PETER POWELL
Liverpool fær ekki langan tíma til að komast yfir markaleysi sitt á móti Bayern München á Anfield í Meistaradeildinni í gærkvöldi því liðið heimsækir erkifjendur sína í Manchester United á sunnudaginn.

Tim Sherwood, fyrrum leikmaður og knattspyrnustjóri í ensku úrvalsdeildinni, er nú sérfræðingur á Sky Sports. Hann hefur áhyggjur af Liverpool liðinu í þessum leik á móti Manchester United.

„Liverpool gæti ekki mætt Manchester United á verri tíma,“ sagði Tim Sherwood en liðin mætasat á Old Trafford. Liverpool vann fyrri leikinn 3-1 og það var síðasti leikur United undir stjórn Jose Mourinho. Ole Gunnar Solskjær tók við liðinu og Manchester United hefur nú unnið ellefu af þrettán síðustu leikjum sínum.





„Ef við myndum leyfa United-mönnum að velja hvenær þeir fengju að spila þennan leik þá væri það núna því þeir eru á miklu flugi. Ef þeir vilja líka spilla tímabilinu hjá einhverju liði í deildinni þá væri það hjá Liverpool,“ sagði Sherwood.

„United-liðið er líka í baráttu um efstu fjögur sætin og Solskjær er að sýna sig sem mögulegur framtíðarstjóri. Þetta er stærsti leikur Manchester United á tímabilinu,“ sagði Sherwood.

„Þessi leikur skiptir United miklu máli en samt Liverpool enn meira máli því þeir sjá meistaratitilinn í hillingum, sagði Sherwood.

„City-liðið vill verða enskur meistari en leikmennirnir og stjórinn vilja líka vinna Meistaradeildina. Hún er í forgangi. Ég ætla samt ekki að ganga svo langt að segja að þeir taki fótinn af bensíngjöfinni í deildinni því þeir vilja vinna tvö ár í röð,“ sagði Sherwood.

„Liverpool er með frumkvæðið núna en þurfa horfa yfir öxlina á sér því City er að koma. Ég spáði Manchester City sigri í upphafi tímabilsins og hef ekki skipt um skoðun. Í mínum huga munu City-menn ná Liverpool,“ sagði Sherwood.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×