Innlent

Reglur um blóðgjafir samkynhneigðra verði rýmkaðar en varlega

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil umræða hefur skapast um hverjir mega gefa blóð.
Mikil umræða hefur skapast um hverjir mega gefa blóð. Vísir/Getty
Ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu leggur til að rýmka megi reglur Blóðbankans um blóðgjafir samkynhneigðra karlmanna en telur að fara beri varlega í að breyta reglunum. Samkynhneigðum karlmönnum gæti verið vísað frá í tólf mánuði samkvæmt tillögu nefndarinnar.

Heilbrigðisráðherra óskaði eftir áliti nefndarinnar á því hvort slaka mætti á reglum um blóðgjafir samkynhneigðra karlmanna eftir umræður sem höfðu þá spunnist um núgildandi reglur sem banna þeim alfarið að gefa blóð.

Í áliti sem nefndin skilaði ráðherra í dag kemur fram að hún telji að tólf mánaða tímabundin frávísun fyrir blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna sé hæfilegt fyrsta skref. Undirbúa þurfi breytinguna á margvíslegan hátt og því leggur nefndin til að reglum verði breytt eftir eitt til tvö ár.

Til að tryggja gæði blóðs og blóðhluta vill nefndin að um leið og reglur um blóðgjafir samkynhneigðra karlmanna verði rýmkaðar verði gripið til fleiri ráðstafana. Þar á meðal vill nefndin fara yfir og meta tímabundnar frávísanir vegna annarra þátta eins og húðmyndaskreytingar, íhluta í húð og slímhúðir, maga- og ristilspeglunar, kynmökum við fólk í sérstakri áhættu, ferðalögum á malaríusvæði og fleiri þátta.

Þá vill nefndin auka rannsóknir á blóði sem er gefið og bæta við svonefndum kjarnsýruprófunum á öllum blóðhlutum og að kynningarherferð um breytingarnar fari fram.


Tengdar fréttir

Bann við blóðgjöf samkynhneigðra endurskoðað

Til skoðunar er að breyta reglum sem banna samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð á Íslandi. Málið er í ferli hjá heilbrigðisráðuneytinu og er niðurstaða væntanleg á næstu vikum eða mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×