Fótbolti

Adrien Rabiot rak mömmu sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adrien Rabiot.
Adrien Rabiot. Getty/Julien Mattia
Móðir Adrien Rabiot vildi líklega bara halda honum hjá sér í París en það kostaði hana væntanlega starfið.

Adrien Rabiot er 23 ára miðjumaður franska stórliðsins Paris Saint-Germain en hann vildi komast til Barcelona í síðasta mánuði.

Barcelona bauð 40 milljónir evra í Adrien Rabiot í janúar en ekkert varð að kaupunum þrátt fyrir að Adrien Rabiot ætti bara sex mánuði eftir af samningi sínum við PSG.

Rabiot neitaði að framlengja samninginn sinn við franska stórliðið og endaði með að æfa með varaliði Paris Saint-Germain.

Adrien Rabiot var mjög ósáttur með að komast ekki til Barcelona og ákvað að reka umboðsmanninn sinn. Það fylgir hins vegar sögunni að umboðsmaður hans var móðir hans.





Samkvæmt frétt spænska blaðsins Sport þá lítur út fyrir að móðir Adrien Rabiot hafi ekki viljað að hann færi til Spánar. Heimildir blaðsins herma að hún hafi lofað syni sínum að skoða og ganga frá smáatriðunum varðandi félagsskiptin en gerði síðan ekkert í málinu.

Félagsskiptaglugginn lokaði 31. janúar og Adrien Rabiot var áfram leikmaður Paris Saint-Germain þar sem hann hefur verið út í kuldanum hjá þjálfaranum Thomas Tuchel.

Adrien Rabiot er kominn með nýjan umboðsmann og stefnan er enn að komast til Barcelona. Áhugi Börsunga gæti þó verið minni í sumar eftir að félagið keypt Frenkie De Jong frá Ajax.

Rabiot gæti því endað annars staðar og jafnvel í ensku úrvalsdeildinni.

Adrien Rabiot er alinn upp hjá Paris Saint-Germain og hefur spilað sex landsleiki fyrir Frakka. Þetta er hæfileikaríkur miðjumaður með framtíðina fyrir sér. Það ættu því mörg félög að sækjast eftir þjónustu hans í sumar. Um þá samninga mun aftur á móti nýr umboðsmaður hans sjá um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×