Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ritstjórn skrifar
Verkalýðsfélögin á almenna markaðnum segja það af og frá að þau séu að krefjast hækkunar launa upp á sjötíu til áttatíu og fimm prósent líkt og fullyrt hafi verið. Félögin krefjist krónutöluhækkana sem þýði að lægstu launin hækki hlutfallslega mest eða um tæplega 42 prósent á samningstímanum.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 á eftir verður greint frá nýjustu vendingum í kjaramálum og rætt meðal annars við formann Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu en hann óttast að verkfallsaðgerðir muni hafa mikil áhrif á orðspor íslenskrar ferðaþjónustu. Atkvæðagreiðsla félagsmanna í Eflingu um fyrstu aðgerðir verkalýðsfélaganna til að þrýsta á um launahækkanir hefst á mánudag.

Við ræðum einnig við trúnaðarmann starfsmanna sem vinna við þrif á hóteli í Reykjavík sem segir að margir óttist að þeir gætu misst vinnuna ef þeir styðji verkfallsaðgerðir. Starfsfólk sé þó kvatt til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir.

Þá ræðum við við þingmennina Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson sem gengu til liðs við Miðflokkinn í dag, fylgjumst með mótmælum íslenskra námsmanna sem komu saman á Austurvelli í dag til að vekja athygli á þeirri ógn sem blasir við vegna loftslagsbreytinga og segjum frá áformum um opnun þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri.

Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×