Sport

Sjáðu mjög flotta Nike auglýsingu um „brjálaðar“ íþróttakonur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams.
Serena Williams. Getty/Quinn Rooney
Íþróttakonur heimsins fengu sviðsljósið og öflug hvatningarorð í nýjustu auglýsingu Nike sem var frumsýnd í sjónvarpsútsendingunni frá Óskarsverðlaunum í Bandaríkjunum í nótt.

Tenniskonan Serena Williams fór þar yfir stöðu þeirra íþróttakvenna sem ruddu brautina en þessi sigursæla tenniskona hefur verið andlit íþróttavöruframleiðandans Nike um nokkurn tíma.

Auglýsingin er mjög vel heppnuð en þar eru teknar fyrir þær íþróttakonur sem hafa brotið niður múra, sameinað fólk í gegnum íþróttir og með því haft mikil áhrif á næstu kynslóðir íþróttakvenna.





Serena fer með áhrifamikinn texta í auglýsingunni á meðan við sjáum frægar myndir af afrekum kvenna í íþróttasögunni. Þar á meðal eru WNBA-körfuboltakonan Lisa Leslie, fimleikakonan Simone Biles, knattspyrnukonan Alex Morgan, aðstoðarþjálfari San Antonio Spurs, Becky Hammon og skylmingakonan Ibtihaj Muhammad,

„Ef við sýnum tilfinningar þá erum við dramatískar, ef við viljum spila á móti körlum þá erum við klikkaðar og ef okkur dreymir um jöfn tækifæri þá erum við blekkja okkur sjálfar,“ segir Serena Williams í auglýsingunni.

„Ef við erum of góðar þá er eitthvað að okkur. Þegar við verðum reiðar þá erum við móðursjúkar, órökrænar eða bara hreinlega brjálaðar,“ segir Serena en heldur áfram:

„Það þótti brjálæði þegar kona ætlaði að hlaupa maraþon, það var brjálæði þegar kona ætlaði að keppa í hnefaleikum, kona sem treður boltanum í körfuna, brjálæði, kona að þjálfa NBA-lið, brjálæði, kona sem keppir í hettuslæðu, kona sem breytti íþróttinni sinni, kona sem lendir ofurstökki eða kona sem vinnur 23 risatitla, eignast barn en vill samt koma til baka fyrir meira. Brjálæði, brjálæði, brjálæði og brjálæði,“ segir Serena.

„Ef þeir vilja brjálæði, þá skulum við sýna þeim hvað brjálaðar íþróttakonur geta gert,“ sagði Serena.

Það má sjá þessa flottu auglýsingu hér fyrir neðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×