Viðskipti innlent

LSR bætir við sig í HB Granda en Lífeyrissjóður verslunarmanna selur

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur á undanförnum sex mánuðum bætt við sig í HB Granda með kaupum á samanlagt ríflega 0,9 prósenta hlut í útgerðinni, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa hennar. Á meðan hafa aðrir lífeyrissjóðir í hópi stærstu hluthafa HB Granda minnkað lítillega hlut sinn.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins fór í lok janúar sl. með 14,6 prósenta hlut í HB Granda, að virði um 7,9 milljarða króna, en til samanburðar nam eignarhlutur sjóðsins 13,7 prósentum í lok júlí í fyrra.

Hlutur Lífeyrissjóðs verslunarmanna, þriðja stærsta hluthafa HB Granda, var 13,2 prósent í lok janúar en sjóðurinn hefur á undanförnum sex mánuðum selt um hálfs prósents hlut í útgerðinni. Þar á eftir kemur Gildi lífeyrissjóður með 8,5 prósenta hlut en hann hefur minnkað hlut sinn lítillega á síðustu mánuðum. Það sama gildir um Birtu lífeyrissjóð sem á liðlega 3,9 prósent í útgerðarfélaginu.

Hlutabréfasjóður í stýringu Stefnis, Stefnir ÍS 15, hefur selt um 0,7 prósenta hlut í HB Granda á undanförnum mánuðum og hélt í lok síðasta mánaðar á tæplega 2,9 prósenta hlut í félaginu.

Útgerðarfélag Reykjavíkur er sem fyrr stærsti hluthafi HB Granda með 35 prósenta hlut.

Hlutabréf í útgerðinni hafa lækkað um 9,6 prósent í verði á síðustu sex mánuðum og stóð gengi bréfanna í 29,85 krónum á hlut við lokun markaða í gær. Var markaðsvirði félagsins þá um 54,1 milljarður króna.




Tengdar fréttir

Brim og Grandi undan smásjá

Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til að aðhafast neitt frekar í athugun sinni á því að breyting hafi átt sér stað á yfirráðum í HB Granda.

Með tögl og hagldir í íslenskum sjávarútvegi

Álitsgjafar Markaðarins segja að með kaupum á ríflega þriðjungshlut í HB Granda hafi Guðmundur Kristjánsson, viðskiptamaður ársins, komið sér í lykilstöðu í einu öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Kapallinn hafi gengið upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×