Handbolti

Tíu mörk Teits dugðu ekki gegn botnliðinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Teitur Örn Einarsson átti stórleik
Teitur Örn Einarsson átti stórleik vísir/getty
Botnlið Hammarby vann mjög óvæntan sigur á toppliði og ríkjandi meisturum Kristianstad í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Teitur Örn fór mikinn í liði Kristianstad og skoraði 10 mörk af 28 í 31-28 tapi. Ólafur Guðmundsson bætti tveimur mörkum við en Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað.

Meistararnir í Kristianstad byrjuðu miklu betur og komust í 1-5. Heimamenn náðu aðeins að laga stöðuna en gestirnir voru þó með yfirhöndina allan fyrri hálfleik.

Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 12-17 fyrir gestina og stefndi allt í þægilegan sigur þeirra.

Það átti hins vegar ekki eftir að verða. Heimamenn hengu í þeim og jöfnuðu um miðjan seinni hálfleikinn. Það var hins vegar ekki fyrr en á 51. mínútu að Tobias Rosengren kom heimamönnum yfir í fyrsta skipti í leiknum.

Hammarby náði að halda forystunni út leikinn og unnu að lokum mjög mikilvægan þriggja marka sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×