Enski boltinn

Smalling: Þurfum að tækla kynþáttaníð með betri menntun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Chris Smalling, miðvörður Manchester United.
Chris Smalling, miðvörður Manchester United. vísir/getty
Chris Smalling, miðvörður Manchester United, segir að betri menntun í enskum skólum sé lykillinn að því að tækla rasisma í landinu.

Smalling sagði sína skoðun á málinu ásamt nokkrum öðrum fótboltamönnum eftir að könnun Sky Sports leiddi í ljós að 86 prósent þeirra sem fara reglulega á leiki í ensku úrvalsdeildinni hafa orðið vitni að kynþáttaníði.

„Það er frekar sorglegt að við erum að horfa upp á svona mörg atvik árið 2019 sem tengjast kynþáttaníði. Þetta er svo óþarfi. Þetta er erfitt mál að tækla en ég held að það þurfi að byrja í skólunum með betri menntun,“ segir Smalling.

Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, varð fyrir kynþáttaníði í leik á móti West Ham fyrr í febrúar og þá var stuðningsmaður Tottenham settur í fjögurra ára bann fyrir að henda bananahýði í áttina að Pierre-Emerick Aubameyang, framherja Arsenal.

„Það þurfa að vera alvöru viðurlög við þessu því annars heldur fólk að það komist upp með þetta og það er ekki gott fyrir börnin að læra. Ég held því að aukin refsing og meiri menntun í skólum sé lykillinn að því að laga þetta vandamál,“ segir Chris Smalling.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×