Fótbolti

Íslendingurinn Heung-min Sonensson

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heung-min Son skorar og skorar.
Heung-min Son skorar og skorar. vísir/getty
Tottenham er sama og komið áfram í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir frábæran 3-0 sigur á Dortmund sem situr í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar.

Það kom kannski fáum á óvart að Suður-Kóreumaðurinn Son Heung-min skoraði fyrsta mark Tottenham en hann er búinn að vera einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í vetur og gjörsamlega haldið Spurs á floti í fjarveru lykilmanna.

Stuðullinn á að Son myndi skora í gærkvöldi var líklega ekki hár því ef það er eitthvað sem hann elskar að gera er það að skora á móti Dortmund. Hann spilar varla á móti þeim gulu án þess að setja mark.

Son spilaði fyrir Hamburg og Bayer Leverkusen í þýsku 1. deildinni og er, eftir leikinn í gærkvöldi, búinn að skora níu mörk í ellefu leikjum á móti Dortmund og vinna sjö af þeim. Væntanlega ekki ofarlega á jólakortalista stuðningsmanna Dortmund.

Meistaradeildin er sýnd á BT Sport á Englandi og voru þeir sem stýra Twitter-síðu fótboltahluta BT Sport í miklu stuði á meðan á leik stóð í gærkvöldi og vel eftir leik.

Son er auðvitað aðalmaðurinn hjá Tottenham núna og kom eitt skemmtilegt tíst eftir að Son var búinn að skora markið þar sem nafn hans var sett inn í allskonar hefðbundin nöfn frá öðrum löndum.

Uppslátturinn var: Besti leikmaðurinn frá hverju landi, en alls staðar kom Son við sögu. Besti leikmaður Englands var Son Smith, Portúgalinn var Sonaldo, Hollendingurinn Van der Son og sá íslenski Heung-min Sonesson.

Sigurinn var sögulegur fyrir Tottenham því liðið hafði aldrei áður unnið leik í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar á heimavelli. Það hafði spilað þrjá leiki á heimavelli við AC Milan, Real Madrid og Juventus en tókst nú loks að vinna.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×