Innlent

Nú má heita Einara, Kolþerna og Baldína en ekki Nanyore

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þetta barn gæti fengið nafnið Einara.
Þetta barn gæti fengið nafnið Einara. Vísir/Getty
Kvenmannsnöfnin Einara, Kolþerna og Baldína eru meðal þeirra nafna sem Mannanafnanefnd hefur samþykkt sem eiginnöfn og verða þau færð á mannanafnaskrá. Millinöfnin Danski og Eðvald hlutu hins vegar ekki náð fyrir augum nefndarinnar.

Nöfnin Einara, Kolþerna, Baldína og Ásynja taka íslenskri beygingu í eignarfalli og voru því samþykkt af nefndinni. Eiginnöfnin Elízabet, Emanúela og Natalí voru einnig færð á mannanafnaskrá en þau töldust uppfylla ákvæði um mannanöfn. Var meðal annars litið til þess að tvær núlifandi konur beri nafnið Elízabet auk þess sem nafnið kemur fyrir í tólf manntölum frá 1703–1920. Ritháttur nafnsins telst því hefðaður.

Þá var eiginnafnið Javí fært á mannanafnaskrá en eiginnafninu Javi hafnað. Eiginnafni Javi taldist ekki ritað í samræmi við íslenskar ritreglur miðað við að framburður þess sé Javí. Javí hins vegar íslenskri beygingu í eignarfalli.

Millinöfnunum Eðvald og Danski var hafnað en nefndin taldi nafnið Eðvald hafa unnið sér hefð sem eiginnafn. Millinafnið Danski hefur nefnifallsendingu og fullnægir því ekki skilyrðum laga um mannanöfn.

Eiginnöfnunum Nanyore og Nasha var hins vegar hafnað af nefndinni. Bæði nöfn er ekki rituð í samræmi við ritreglur íslensks máls og hvorugt nafnanna taldist hafa unnið sér hefð í íslensku máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×