Enski boltinn

Segir Özil-málið vera að breytast í atriði í grínþætti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Özil með fyrirliðabandið.
Mesut Özil með fyrirliðabandið. Getty/David Price
Þýski knattspyrnumaðurinn Mesut Özil er launahæsti og að sumra mati stærsta stjarna Arsenal-liðsins. Hann er aftur á móti í engu uppáhaldi hjá knattspyrnustjóranum Unai Emery sem vill hreinlega ekki nota hann.

Unai Emery skildi Özil eftir heima þegar liðið fót til Hvíta-Rússlands til að spila við BATE Borisov í Evrópudeildinni. Arsenal tapaði leiknum 1-0 og að sjálfsögðu fóru knattspyrnusérfræðingar Sky Sports að velta fyrir sér enn einni fjarveru hans.

„Þetta er breytast í atriði í grínþætti eins og staðan er núna,“ sagði Andy Cole í þættinum The Debate á Sky Sports.





„Við vitum öll hversu hæfileikaríkur hann er,“ sagði Cole og bætti svo við:

„Knattspyrnustjórinn hefur ákveðið að hann vilji ekki hafa hann í liðinu af því að hann vinnur ekki nógu vel fyrir liðið eða hvað það er. Stundum þegar þú hefur svona lúxusleikmann í liðinu þá held ég að sumir í liðinu væru tilbúnir að leggja aðeins meira á sig til að koma boltanum til hans svo hann geti töfrað eitthvað fram,“ sagði Cole.

„Arsenal-liðið undir stjórn Wenger gerði það. Þú verður að nota þína bestu leikmenn þegar þú þarft á þeim að halda og Özil er einn af þeirra bestu leikmönnum,“ sagði Cole.

„Ef þú myndir spyrja Lacazette and Aubameyang: Viljið þið að Mesut spili? Þeir myndu segja já allan daginn. Þetta er mjög undarlegt,“ sagði Cole.





Andrew Cole er þriðji markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 187 mörk en hann er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Newcastle United (1993-1995) og Manchester United (1995-2001).

Cole skoraði 24 mörk á tímabilinu 1998-99 þegar United vann þrennuna og vann alls níu titla á tíma sínum á Old Trafford þar af ensku deildina fimm sinnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×