Körfubolti

Scottie Pippen: LeBron er ekki líkur Jordan og ekki einu sinni Kobe

Tómas Þór Þórðarson skrifar
LeBron James er gjarnan borinn saman við Michael Jordan.
LeBron James er gjarnan borinn saman við Michael Jordan. vísir/getty
LeBron James er besti körfuboltamaður í heimi í dag og einn sá allra besti í sögunni. Hann hefur unnið þrjá NBA-meistaratitla og fer árlega í lokaúrslitin og er því oft borinn saman við þann besta frá upphafi, Michael Jordan.

Scottie Pippen vann alla sex titlana með Jordan á sínum tíma og fylgist vel með NBA-deildinni í dag sem sérfræðingur í þættinum The Jump á ESPN. Hann var gestur í þættinum First Take í gær þar sem að hann ræddi þennan samanburð og hann er alls ekki á því að LeBron sé eins og Jordan.

„LeBron er ekki líkur Michael Jordan sem leikmaður og ekki einu sinni Kobe Bryant,“ segir Scottie Pippen.

„LeBron hefur ekki sama gen og Michael Jordan þegar kemur að taka yfir leiki og vilja taka síðasta skotið. Það er ekki í honum. Kobe er með það gen. Ég sé smá af þessu í Paul George, Russell Westbrook og Kawhi Leonard.“

LeBron James er í basli með Los Angeles Lakers þessa dagana en liðið gæti misst af sæti í úrslitakeppninni. Það hefur ekki gerst á ferli LeBron síðan á nýliðaárinu hans 2003/2004.

„Ég horfði á LeBron um daginn og þegar að leikurinn var undir þegar að lítið var eftir reyndi hann ekki einu sinni að fá boltann,“ segir Pippen.

„Þetta snýst um að stíga upp þegar að allt er undir. LeBron er ekki með það gen í sér. Hann kann alveg að vinna og vill hafa boltann en leikmenn með þetta sigurgen fara og ná í boltann,“ segir Scottie Pippen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×