Handbolti

Skjern í erfiðum málum í Meistaradeildinni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Björgvin Páll í leik með Íslandi á HM.
Björgvin Páll í leik með Íslandi á HM. vísir/getty
Útlitið er orðið nokkuð svart fyrir Danmerkurmeistara Skjern í Meistaradeild Evrópu eftir tap fyrir Nantes á heimavelli í dag.

Skjern er í áttunda og síðasta sæti B-riðils þegar tvær umferðir eru eftir, þremur stigum frá sjötta sæti, síðasta sætinu sem gefur aðgang að 16-liða úrslitunum.

Björgvin Páll Gústavsson skoraði eitt af 32 mörkum Skjern í leiknum, en Nantes vann 34-32 sigur í Danmörku. Heimamenn voru yfir 17-15 í hálfleik.

Í sama riðli unnu Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar í Pick Szeged sigur á Motor Zaporozhye í hörku leik í Ungverjalandi.

Gestirnir í Zaporozhye voru yfir nær allan leikinn þar til síðustu tíu mínúturnar þegar heimamenn jöfnuðu og það sem eftir lifði var hörkuspenna í leiknum.

Dean Bombac skoraði sigurmarkið fyrir Szeged á lokamínútu leiksins í 30-29 sigri. Stefán Rafn var með þrjú mörk fyrir heimamenn.

Með sigrinum minnkaði Szeged forskot Paris Saint-Germain á toppi riðilsins niður í eitt stig en PSG á þó leik til góða. Topplið riðilsins sleppur við 16-liða úrslitin og fer beint inn í 8-liða úrslit keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×