Erlent

Netanyahu lætur af em­bætti utan­ríkis­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Israel Katz og Benjamín Netanyahu.
Israel Katz og Benjamín Netanyahu. Getty
Nú þegar tæpur tveir mánuðir eru þar til Ísraelar ganga að kjörborðunum og kjósa sér nýtt þing hefur Benjamín Netanyahu forsætisráðherra tilkynnt að hann láti af embætti utanríkisráðherra.

Netanyahu greindi frá því í morgun að hann hafi fengið Israel Katz, ráðherra samgöngumála og leyniþjónustumála, til að sinna embætti utanríkisráðherra þar til ný stjórn verður mynduð eftir kosningar sem fram fara 9. apríl.

Forsætisráðherrann Netanyahu hefur sætt nokkurri gagnrýni þar sem hann þykir sinna helst til of mörgum ráðherraembættum, en hann er einnig ráðherra heilbrigðismála og varnarmála. Hann tók að sér embætti utanríkismála árið 2015.

Katz er reynslumikill stjórnmálamaður og samflokksmaður Netanyahu í Likud. Katz hefur sjálfur sagst stefna að því að verða forsætisráðherra en kveðst þó ekki ætla að skora Netanyahu á hólm fyrir kosningarnar í apríl.

Hinn 69 ára Netanyahu hefur gegnt embætti forsætisráðherra í Ísrael í alls þrettán ár. Hann sætir nú þrýstingi vegna ásakana um spillingu auk þess að ríkisstjórn hans er einungis með mjög nauman meirihluta á þingi.

Ákveðið var að flýta kosningum um sjö mánuði eftir að einn flokkurinn sagði skilið við stjórnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×