Viðskipti innlent

WOW air óskar eftir greiðslufresti

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Skúli Mogensen. Fréttablaðið/Anton Brink
Skúli Mogensen. Fréttablaðið/Anton Brink
Stjórnendur WOW air hafa beðið um frest fram í miðjan mars til að gera upp ógreidd lendinga- og farþegagjöld á erlendum flugvöllum, samkvæmt heimildum Túrista, en vefurinn greindi fyrst frá málinu. Skúli Mogensen, forstjóri WOW, vildi ekkert tjá sig um málið við fjölmiðla í dag.

Í frétt Túrista segir að flugfélagið hafi sent bréf til viðkomandi flugvalla þar sem kemur fram að félagið óski eftir vilyrði fyrir því að notendagjöld flugfélagsins verði greidd í næsta mánuði en ekki nú í lok febrúar eins og ráð var gert fyrir.

Þá kemur fram að erfitt sé að leggja mat á upphæðirnar en bent er á að notendagjöld WOW air á Keflavíkurflugvelli, fyrir janúar, hafi verið á bilinu 250 til 300 milljónir króna.

Í lok febrúar mun fresturinn sem eigendur skuldabréfa í WOW air veittu Indigo Partners og Skúla Mogensen til að ná samkomulagi um kaup félagsins á stórum hluta í íslenska flugfélaginu renna út. Upplýsingar hafa ekki fengist um stöðu viðræðnanna en gert er ráð fyrir því að flugfélagið sendi yfirlýsingu um stöðuna í síðasta lagi þann 28. febrúar.

Auk þess er ekki ljóst hvort WOW verði heimilt að hætta við tólf ára leigusamning á fjórum nýjum Airbus A330 breiðþotum, en leiguverð á einni slíkri er hátt í 100 milljónir króna á mánuði og eru tvær þotur af fjórum nú tilbúnar með merkjum WOW við verksmiðju Airbus í Frakklandi. WOW gæti þurft að greiða á bilinu 300 til 500 milljónir króna til að losna undan leigusamningi á hverri og einni breiðþotunni og því um umtalsverðar upphæðir að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×