Fótbolti

Ráðast gegn rasistunum sem voru með níð í garð Mbappé

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kylian Mbappé.
Kylian Mbappé. vísir/getty
Ljót orð um franska knattspyrnukappann Kylian Mbappé, sem spreyjuð voru í lest í Frakklandi, hafa vakið hörð viðbrögð þar í landi og menn ætla í hart vegna málsins.

Kynþáttaníðið var spreyjað inn í lest í París og mynd af því fór á flug á netinu. Samtök gegn kynþáttaníði í Frakklandi tóku málið strax á sína arma og ætla sér að finna hina seku.

„Þegar einhver verður fyrir níði út af húðlit sínum þá er það árás á franska ríkið,“ sögðu samtökin sem tóku málið föstum tökum.

Franska knattspyrnusambandið ætlar að taka þátt í lögsókn gegn hinum seku sem nú er leitað að. Lögreglan skoðar nú myndbönd úr öryggismyndavélum og ætlar sér að finna þá seku.

Mbappé er ein stærsta knattspyrnustjarna Frakka. Faðir hans er frá Kamerún en móðir hans frá Alsír. Sjálfur er Mbappé fæddur í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×