Handbolti

FH og Fjölnir síðustu liðin í undanúrslitin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ásbjörn var öflugur sem fyrr í kvöld.
Ásbjörn var öflugur sem fyrr í kvöld. vísir/bára
FH er þriðja úrvalsdeildarliðið sem er komið í undanúrslit Coca-Cola bikars karla eftir að hafa slegið út Aftureldingu í kvöld. Lokatölurnar urðu 29-26 í leik liðanna í Mosfellsbæ í kvöld.

FH-ingarnir byrjuðu af rosalegum krafti og komust í 7-1 og 8-2 en heimamenn virtust vankaðir í upphafi leiks. Þeir náðu þó aðeins að laga stöðuna en Hafnfirðingar leiddu þó með fimm mörkum í hálfleik, 15-10.

Hægt og rólega náðu heimamenn að saxa á forskot FH og þeir náðu að jafna metin í 22-22 er tíu mínútur voru eftir. Það var í fyrsta skipti síðan í stöðunni 0-0 sem staðan var jöfn.

Á lokakaflanum voru gestirnir úr Hafnarfirði sterkari og eru þar af leiðandi komnir í undanúrslitin í Laugardalshöll í næsta mánuði en lokatölurnar urðu 29-26.

Birgir Már Birgisson var markahæstur hjá Fimleikafélaginu með sex hvor og Kristófer Fannar Guðmundsson varði ágætlega í markinu. Tumi Steinn Rúnarsson og Finnur Ingi Stefánsson voru með fimm mörk fyrir Aftureldingu.

Fjölnir varð svo fjórða og síðasta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitunum er liðið vann Þrótt í B-deildarslag í Grafarvogi í kvöld.

Sigurinn varð stór, 33-19, eftir að staðan hafi verið 16-11 fyrir Fjölnisliðinu í hálfleik. Þeir verða því ásamt FH, Val og ÍR í úrslitahelginni.

Breki Dagsson skoraði sjö mörk fyrir Fjölni og Bergur Elí Rúnarsson bætti við sex. Óttar Filipp Pétursson og Aron Valur Jóhannsson skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Þrótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×