Innlent

Skattkerfisbreytingarnar komu Sigmundi í opna skjöldu: „Til stendur að flækja skattkerfið“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að fjölgun skattþrepa sé ekki í takt við málflutning fjármálaráðherra síðustu ár.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að fjölgun skattþrepa sé ekki í takt við málflutning fjármálaráðherra síðustu ár. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að skattkerfisbreytingar sem kynntar voru í fjármála-og efnahagsráðuneytinu í dag komi honum verulega á óvart. Hann segir þær ekki vera í takt við málflutning fjármálaráðherra síðustu ár en Sigmundur og Bjarni Benediktsson voru samráðherrar í ríkisstjórn frá 2013-2016.

Útspil Bjarna kom Sigmundi verulega í opna skjöldu en hann segir í færslu á Facebook að stutt sé síðan Bjarni hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að fækka skattþrepum og nýta kosti persónuafsláttar. „Um það vorum við sammála og fækkuðum skattþrepum og hækkuðum persónuafslátt,“ skrifar Sigmundur.

Í dag kynnti Bjarni nýtt neðsta skattþrep sem á að lækka skattbyrði lágtekjufólks um rúm tvö prósentustig. Hið nýja skattþrep er 32,94 prósent eða fjórum prósentustigum lægra en lægra þrepið í tveggja þrepa skattkerfi.

Hann segist ekki vera bjartsýnn á að fjölgun skattþrepa verði til þess fallin að leysa úr stöðunni á vinnumarkaði. „Til stendur að flækja skattkerfið og taka aftur upp þrjú skattþrep“.


Tengdar fréttir

Kynnir breytingar í skattamálum síðdegis

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur boðað til blaðamannafundar í ráðuneytinu í dag klukkan 17 þar sem hann mun kynna fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um breytingar í skattamálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×