Innlent

Ekki útlit fyrir að grípa þurfi til aðgerða vegna mikillar notkunar á heitu vatni

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sylvía Hall skrifa
Upplýsingafulltrúi Veitna brýnir fyrir fólki að fara vel með heita vatnið eins og aðrar náttúruauðlindir.
Upplýsingafulltrúi Veitna brýnir fyrir fólki að fara vel með heita vatnið eins og aðrar náttúruauðlindir. Vísir/Getty
Kuldatíðin á Höfuðborgarsvæðinu hefur gert það að verkum að síðustu daga hefur hvert metið á fætur öðru verið slegið á notkun á  heitu vatni. Kuldakastið náði hámarki í nótt og morgun en gert er ráð fyrir að það fari að draga úr frostinu á morgun. Ólöf Snæhólm er upplýsingafulltrúi Veitna.

„Við slógum nýtt met í sólarhringsrennsli sem var ríflega sextán þúsund rúmmetrar á klukkustund yfir sólarhring og síðan slógum við einnig met í rennsli á klukkustund í morgun og það voru sextán þúsund og átta hundruð rúmmetrar sem íbúar og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu voru að nýta,“ segir Ólöf.

Fyrir helgi kom fram að mögulega þyrfti að grípa til þeirra aðgerða að draga úr heitu vatni til stórnotenda eins og sundlauga og þá gæti þeim verið lokað. Það liggur hins vegar ekki fyrir núna.

„Það er ekki útlit fyrir það í vikunni eins og staðan er núna en við eigum eftir að sjá hægan vöxt í notkun fram eftir degi og fram að kvöldi en eftir það fer að hlýna,“ segir Ólöf.

Ólöf segir að frá árinu 2017 hafi hvert metið á fætur öðru verið slegið í notkun á vatni á höfuðborgarsvæðinu. Það hafi verið umfram spár. 

„Veitur hafa verið að flýta framkvæmdum þegar við sáum í hvað stefndi og þær framkvæmdir eru ekki tilbúnar, ég er að tala kannski helst um stækkun á varmastöðinni við Hellisheiðarvirkjun sem verður tilbúin í haust.“

Ólöf Snæhólm segir mikilvægt að fara vel með heita vatnið eins og aðrar náttúruauðlindir en hægt er að nálgast sparnaðarráð á vef veitna.


Tengdar fréttir

Janúar blés heitu og köldu

Hiti var vel yfir meðallagi í fyrri hluta janúar en verulega kólnaði eftir því sem leið á mánuðinn, sérstaklega síðustu dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×