Innlent

Leitaði á slysadeild eftir að ráðist var að börnum í strætóskýli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árásarmaðurinn var í annarlegu ástandi.
Árásarmaðurinn var í annarlegu ástandi. Vísir/Vilhelm
Mörg mál komu á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt en flest verkefnin sneru að ölvun. Í eitt skiptið var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi sem réðst að börnum í strætóskýli og hljóp svo af vettvangi. Lögregla hafði hendur í hári mannsins skömmu síðar. Einn leitaði á slysadeild vegna atviksins, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var ölvaður maður til vandræða á hóteli í miðbænum en hann neitaði að yfirgefa staðinn. Maðurinn var vistaður í fangaklefa.

Einnig var óskað eftir aðstoð lögreglu í miðbænum vegna blóðugs manns en hann var með áverka í andliti eftir að ráðist var að honum. Manninum var komið á slysadeild en ekkert er vitað um árásarmenn.

Þá var ungur ökumaður stöðvaður á 148 kílómetra hraða í Ártúnsbrekku en þar er 80 kílómetra hámarkshraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×