Handbolti

Teitur: Man eftir þegar að ég hitti Karabatic

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Teitur Örn Einarsson er búinn að spila mikið á HM.
Teitur Örn Einarsson er búinn að spila mikið á HM. vísir/getty
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í handbolta ljúka leik í dag á HM 2019 í handbolta þegar að þeir mæta Brasilíu í milliriðli 1 í Köln.

Strákarnir eru búnir að vera í tveggja daga pásu eftir að spila sex leiki á átta dögum sem að Guðmundur Guðmundsson hefur gagnrýnt harkalega og því var algjöri frídagurinn á mánudaginn kærkominn.

„Við sváfum út og fengum okkur gott að borða. Það var ekki mikið meira gert. Það var voðalega þægilegt að þurfa ekki að hugsa um handbolta í einn dag. Við Haukur,  frændurnir, höfðum það notalegt saman,“ segir Teitur Örn Einarsson, skytta íslenska liðsins.

Móðir Teits setti skemmtilega mynd á Facebook-síðu sína af syninum og Nikola Karabatic, leikmanni franska liðsins, sem er tíu ára gömul. Karabatic deildi myndinni á opinberri Facebook-síðu sinni og hafði gaman að.

„Ég man nú enn þá eftir þessum leik. Ég mætti nú meira að segja í Frakklandsbúningnum í Laugardalshöllina. Pabbi hljóp með mér á eftir Karabatic inn að klefunum til að fá mynd. Það er skemmtilegt að vera að reyna að berja á honum tíu árum seinna,“ segir Teitur, en hvað er hann helst búinn að læra á HM?

„Þeir eru þyngri en maður heldur og maður gerir sér grein fyrir. Ég tel mig samt hafa fulla stjórn á þessu hérna,“ segir hann.

„Það er að koma sér inn á þetta stóra svið og spila á móti svona ógeðslega góðum liðum eins og Þýskalandi og Frakklandi. Það er svo mikilvægt að fá að spila þessa leiki. Það er allt annar hraði og allt önnur harka. Þetta eru mikilvægar mínútur sem maður er að fá hérna.“

„Maður þarf alltaf að gera allt 150 prósent til að koma boltanum í markið. Ef maður gerir eitthvað 50 prósent er ekki séns að maður skori,“ segir Teitur Örn Einarsson.

Klippa: Teitur Örn - Þarf að gera allt 150 prósent

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×