Handbolti

Svekktir eftir töpin en hungrið mikið að klára HM með sigri

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Bjarki Már Elísson er klár í slaginn í dag.
Bjarki Már Elísson er klár í slaginn í dag. vísir/getty
Strákarnir okkar mæta Brasilíu klukkan 14.30 á HM 2019 í handbolta í dag sem er síðasti leikur liðsins á mótinu. Okkar menn þurfa að vinna Brasilíu til að komast upp fyrir það í milliriðlinum.

„Það er ekkert annað í stöðunni en að vinna. Við fengum hvíld í gær sem var kærkomin og síðan æfum við í dag. Við ætlum okkur sigur, það er klárt,“ segir Bjarki Már Elísson, hornamaður Íslands.

Brasilía bauð upp á ein óvæntustu úrslitin í sögu HM um síðustu helgi þegar að liðið gerði sér lítið fyrir og vann Króatíu. Þetta verður því sýnd veiði en ekki gefin í dag.

„Þeir eru komnir mjög langt. Það hefur verið sagt að að þeir séu firmalið en þeir eru ekki meira firmalið en það, að þeir unnu Króata,“ segir Bjarki Már.

„Við þurfum að vera klárir. Brassarnir eru með fína leikmenn. Þeir eru með góða markverði og spila mikið af innleysingum. Þeir gerðu það mikið á móti okkur í Noregi og hengu lengi í okkur þá. Við þurfum bara að vera klárir en þetta er alveg gerlegt verkefni og ég hef trú á að við vinnum þá.“

Guðmundur og strákarnir ætla að vinna í dag.vísr/getty
Strákarnir okkar töpuðu fyrstu tveimur leikjunum í milliriðlinum á móti Þýskalandi og Frakklandi og vilja kveðja mótið með sigri í dag.

„Við vorum svekktir eftir þessi töp en við gerum okkur grein fyrir því að við vorum að spila við mjög sterk lið. Maður þarf að ná rosalega góðum leik til að vinna þessi lið. Menn voru líka orðnir þreyttir en það er mikið hungur að enda þetta á góðum nótum og fara þannig í næsta verkefni,“ segir Bjarki.

Hornamaðurinn rétthenti hefur deilt stöðunni bróðurlega með Stefáni Rafni Sigurmannssyni á mótinu í Þýskalandi en hvernig er að spila oftast bara hálfleik og hálfleik.

„Það er oft þannig en ég er mikið að spila 60 mínútur núna hjá Füchse. Ég hef verið í þessari stöðu áður. Stundum er þetta gaman og stundum ekki. Þegar að maður fær eina sendingu í heilum hálfleik er þetta ekkert sérstaklega gaman,“ segir hann.

„Maður bara tekur þessu og reynir að gera vel á þeim mínútum sem að maður fær. Þetta er náttúrlega styttri tími og getur verið misgaman,“ segir Bjarki Már Elísson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×