Viðskipti innlent

Ekkert fékkst upp í 25 milljóna gjaldþrot Hróa veitinga

Birgir Olgeirsson skrifar
Félagið var lýst gjaldþrota árið 2014.
Félagið var lýst gjaldþrota árið 2014. Vísir/Getty
Skiptum er lokið á þrotabúi Hróa veitingar ehf., sem rak pizzustaðinn Hróa Hött við Hringbraut, en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember árið 2014. Lýstar kröfur í búið námu 25 milljónum króna en engar eignir fundust í búinu og var skiptum lokið í mars árið 2015 en félagið var afskráð í dag.

Þrír veitingastaðir með nafni Hróa Hattar voru reknir hér á landi fyrir nokkrum árum, á Hringbraut í Reykjavík, Smiðjuvegi í Kópavogi og Skólavegi í Vestmannaeyjum, en mismunandi félög héldu utan um reksturinn sem einnig fóru í þrot, líkt og blaðamaður Morgunblaðsins rakti skilmerkilega árið 2014.

Þar á meðal ÁÁ veitingar ehf., í eigu Ásgeirs Ásgeirssonar, sem hélt áður utan um rekstur Hróa Hattar á Hringbraut. Það félag varð gjaldþrota á árinu 2012 en ekkert fékkst upp í lýstar kröfur sem námu 77,6 milljónum króna.

Félagið Salt og gott ehf. hélt utan um rekstur útibúsins á Smiðjuvegi en félagið var úrskurðað gjaldþrota í maí árið 2013 en 1,3 milljónir fengust upp í lýstar kröfur sem námu 59 milljónum króna.

Áður var það félagið Lackland ehf. sem hélt utan um rekstur Hróa hattar á Smiðjuvegi fram til ársins 2012. Ekkert fékkst upp í 223 milljóna króna gjaldþrot félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×