Erlent

Julen litli fannst látinn í borholunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá björgunaraðgerðunum í Totalán í nótt.
Frá björgunaraðgerðunum í Totalán í nótt. EPA/Daniel Perez
Björgunarmenn á Spáni fundu í nótt lík hins tveggja ára Julens Rosello sem féll ofan í borholu í Totalán fyrir utan Malaga fyrir tveimur vikum.

Julen var í lautarferð með fjölskyldu sinni þegar hann féll ofan í holuna þann 13. janúar síðastliðinn. Holan er yfir hundrað metra djúp og var í kjölfarið blásið til umfangsmikilla björgunaraðgerða. Unnið var að því nótt og nýtan dag að hafa uppi á drengnum en göng voru boruð samhliða borholunni.

Í tilkynningu frá yfirvöldum í Andalúsíuhéraði segir að björgunarmenn hafi komist að líki Julens um klukkan hálf tvö í nótt að staðartíma, eða um klukkan hálf eitt að íslenskum tíma.

Spænskir fjölmiðlar hafa greint frá því að holan hafi verið boruð án tilskilins leyfis. Þá var henni ekki lokað eins og mælt er fyrir með lögum og var opið illgreinanlegt í grasinu.

Foreldrar Julens, José og Victoria, hafa áður misst barn. Eldri bróðir Julens, Oliver, lést fyrir tæpum tveimur árum síðan vegna hjartagalla.

 


Tengdar fréttir

Níu dagar ofan í borholunni

Björgunarfólk vann sinn níunda dag í gær að því að ná hinum tveggja ára Julen Roselló úr borholu á suðurhluta Spánar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×