Erlent

Evrópurisar setja forseta Venesúela afarkosti

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Nicolás Maduro.
Nicolás Maduro. Stephanie Keith/Getty
Leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Spánar hafa gert Nicolási Maduro, forseta Venesúela, ljóst að hann þurfi að kalla til kosninga í landinu á næstu átta dögum, ellegar muni ríkin lýsa yfir stuðningi við stjórnarandstöðu Venesúela, og viðurkenna þar með Juan Guaidó sem forseta landsins.

Guaidó lýsti því yfir á miðvikudag að hann væri „starfandi forseti“ landsins í kjölfar fjölmennra mótmæla gegn Maduro. Mörg ríki, þar á meðal Bandaríkin, hafa lýst yfir stuðningi við Guaidó. Maduro hefur í kjölfarið sakað Guaidó um valdaránstilraun og hefur slitið á opinber samskipti Venesúela við Bandaríkin.

Maduro var á dögunum vígður inn í annað kjörtímabil sitt sem forseti í kjölfar kosninga sem margir Venesúelabúar sniðgengu. Þá hafa ásakanir um kosningasvindl einnig verið háværar í kjölfar kosninganna.

Forsætisráðherra Spánar, Pedro Sanchez, skrifaði á Twitter í dag:

„Spánn ber ábyrgð gagnvart rómönsku Ameríku… við leitumst ekki eftir því að breyta eða skipta út ríkisstjórnum, heldur viljum við lýðræði og frjálsar kosningar í Venesúela.“

Frakkland og Þýskaland hafa þá gefið út svipaðar yfirlýsingar í því sem virðist vera samstillt útspil ríkjanna í tilraun til þess að hrinda af stað kosningum í landinu.

Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna mun koma saman í dag til þess að funda um ástandið í Venesúela.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×