Handbolti

Björgvin Páll: Spiluðu leiðinlegan handbolta sem er það besta sem þú getur gert í svona stöðu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Björgvin Páll.
Björgvin Páll. vísir/getty
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Íslands, segir að tapið hafi verið svekkjandi en Spánverjarnir hafi einfaldlega verið sterkari og reynslumeiri.

„Tilfinningin er slæm. Við vorum að gera þetta ágætlega en það vantar einhvern herslumuninn í öllu,“ sagði Björgvin í samtali við Tómas Þór Þórðarson í leikslok.

„Við erum ekki að spila illa en það vantar svona fimm prósent allstaðar og þá endar þetta í sjö átta mörkum gegn svona sterku liði eins og Spánverjum.“

„Í lok fyrri hálfleiks þá er þetta erfitt. Þeir eru hraðir og eru með ógeðslega marga leikmenn. Þegar þú ert á þessu kaliberi máttu ekki leyfa þér nein mistök.“

„Þú þarft að spila nánast fullkominn leik til að vinna þá. Við getum labbað stoltir frá verkinu að mestu leyti en leiðinlegt að tapa.“

Björgvin segir að leikurinn í kvöld hafi ekki verið jafn góður í gær en tekur þó fram að liðið hafi verið að spila gegn stórgóðu liði.

„Nei, alls ekki en þú spilar auðvitað ekki betur en andstæðingurinn leyfir. Þeir spiluðu þetta ógeðslega vel og eru með mjög leikreynt lið.“

„Þegar þeir eru komnir yfir í leiknum þá tóku þeir öll völd. Þeir drápu leikinn og spiluðu leiðinlegan handbolta sem er það besta sem þú getur gert í svona stöðu.“

Klippa: Björgvin Páll: Spiluðu leiðinlegan handbolta





Fleiri fréttir

Sjá meira


×