Erlent

Borgarstjóri Gdansk stunginn á sviði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Gdansk í kvöld.
Frá vettvangi í Gdansk í kvöld. Vísir/EPA
Borgarstjóri pólsku borgarinnar Gdansk varð fyrir stunguárás á sviði fyrir framan hundruð manns í borginni í kvöld. Hann var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús.

Í frétt breska dagblaðsins The Guardian segir að borgarstjórinn, Pawel Adamowicz, hafi verið viðstaddur stóra athöfn sem markaði lokahnykkinn á góðgerðarhátíð í borginni. Fram kemur í fréttinni að karlmaður hafi skyndilega hlaupið upp á svið til borgarstjórans, mundað „beitt verkfæri“ og stungið hann. Pólskir fjölmiðlar greina frá því að maðurinn hafi stungið Adamowicz með hnífi.

Pawel Adamowicz, borgarstjóri Gdansk.EPA/ADAM WARZAWA
Áhorfendur, sem skiptu hundruðum, sáu borgarstjórann halda um magann á sér á sviðinu í kjölfar árásarinnar en hann var fluttur alvarlega slasaður á sjúkrahús eftir endurlífgunartilraunir, samkvæmt frétt BBC.



Maðurinn sem grunaður er um verknaðinn er í haldi lögreglu. Þá hefur áhrifafólk í stjórnmálum birt kveðjur til Adamowicz á Twitter í kvöld, þar á meðal Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins.

Fréttin hefur verið uppfærð með frekari upplýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×