Handbolti

Aron: Þetta er ekkert skemmtilegast í heimi en er árangursríkt

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Pálmarsson, fyrirliði Íslands, var ekkert sérlega hrifinn af leik íslenska liðsins í sigrinum gegn Japan í dag en fyrirliðinn segir að það sé sigurinn sem skipti mestu máli.

„Þetta var ekkert spes leikur af okkar hálfu. Við gerðum mikið af tæknifeilum og klikkum mikið á skotum í fyrri hálfleik. Það er ástæðan fyrir því að við erum bara einu yfir í hálfleik,“ sagði Aron í leikslok.

„Síðan var þetta bara basl í síðari hálfleik en náðum svo að sigla þessu heim og það er ég sáttur með. Þetta er fjórði leikurinn á sex dögum og fer í reynslubankann. Það er líka fínt að vera búnir að taka út þennan leik í stað þess að gera það á morgun.“

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var ánægður með varnarleikinn og Aron tók undir það. Hann var ekki jafn sáttur með sóknarleikinn.

„Við höldum þeim í ellefu mörkum í fyrri hálfleik og svipað í þeim seinni. Við erum með átta tæknifeila í fyrri hálfleik og erum ekki að hitta rammann og eitthvað svoleiðis bull. Það er bara lélegt.“

„Þetta var í raun okkur að kenna hvernig leikurinn spilaðist. Við getum sjálfum um okkur kennt hvernig þetta spilaðist en nú fer allur fókusinn bara á Makedóníu.“

Innan við sólahringur er í næsta leik en hvað gera strákarnir til þess að koma sér í gang fyrir leikinn mikilvæga gegn Makedóníu á morgun?

„Það er bara ísbað, éta vel, sjúkraþjálfun, láta nudda sig og tekur þreytuna úr sér. Það er bara að hvílast og éta nægilega mikið. Gummi á eftir að vera með tvo til þrjá vídeófundi. Þetta er ekkert skemmtilegast í heimi en er árangursríkt. Maður er klár í þetta.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×