Erlent

Lækkuðu vægi erindreka ESB

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og nafni hans Tusk, forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins.
Donald Trump og nafni hans Tusk, forseti ráðherraráðs Evrópusambandsins. EPA/ROBERT GHEMENT
Ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur lækkað vægi erindreka Evrópusambandsins, án þess þó að láta Evrópusambandið vita. ESB er ekki lengur skilgreint sem þjóðríki. Þess í stað er sambandið skráð sem Alþjóðleg samtök, samkvæmt Deutsche Welle.



Breytingarnar fela í sér að ólíklegra er að erindrekunum ESB verði boðið að taka þátt í opinberum athöfnum í Bandaríkjunum. Umræddir erindrekar uppgötvuðu ekki breytingar Hvíta hússins fyrr en við jarðarför George Bush, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þá hafði sendiherra ESB í Bandaríkjunum ekki verið boðið á nokkra viðburði og voru uppi vangaveltur í Brussel um að Hvíta húsið hefði endurskilgreint samband Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Það var svo staðfest í jarðarförinni.

Þó Bandaríkin og Evrópusambandið hafi lengi átt í góðu sambandi og umfangsmiklum viðskiptum hefur Trump sjálfur ítrekað lýst yfir andúð sinni á sambandinu. Hann lýsti yfir stuðningi við útgöngu Breta úr sambandinu, Brexit, og hefur sömuleiðis harðlega gagnrýnt Evrópusambandið og ríki Evrópu varðandi viðskipti og varnarmál.

Trump, sem skilgreinir sig sem þjóðernissinna, hefur dregið Bandaríkin frá þó nokkrum samkomulögum sem ESB kemur að og þá hefur hann heitið því að endurbyggja heimsregluna sem myndaðist í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar á grundvelli þjóðríkja.

Þar að auki nefndi Trump ESB sem einn helsta andstæðing Bandaríkjanna í fyrra.



Embættismaður sem DW ræddi við segir í Brussel sé litið á þetta sem móðgun. Þegar embættismenn ESB settu sig í samband við Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hafi þau svör fengist að gleymst hefði verið að láta Evrópusambandið vita af breytingum á samskiptareglum. Ekki var gefið upp af hverju þessar breytingar hefðu verið gerðar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×