Viðskipti innlent

Ekki með yfirráð í HB Granda

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson tók við sem forstjóri HB Granda í kjölfar kaupa Útgerðarfélags Reykjavíkur á kjölfestuhlut í útgerðinni.
Guðmundur Kristjánsson tók við sem forstjóri HB Granda í kjölfar kaupa Útgerðarfélags Reykjavíkur á kjölfestuhlut í útgerðinni. Fréttablaðið/Anton Brink
Samkeppniseftirlitið telur ekki unnt að slá því föstu að Útgerðarfélag Reykjavíkur hafi, með kaupum á ríflega þriðjungshlut í HB Granda, öðlast yfirráð yfir sjávarútvegsfélaginu í skilningi samkeppnislaga. Komi hins vegar fram vísbendingar um annað áskilur eftirlitið sér rétt til þess að rannsaka málið að nýju.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í bréfi sem Samkeppniseftirlitið skrifaði Útgerðarfélagi Reykjavíkur, áður Brim, og HB Granda í síðustu viku þar sem félögunum var tilkynnt um það mat eftirlitsins að kaup fyrrnefnda félagsins, sem er að mestu í eigu Guðmundar Kristjánssonar, á 34 prósenta hlut í síðarnefnda félaginu hefðu ekki verið tilkynningarskyld.

Guðmundur tók sem kunnugt er við sem forstjóri HB Granda í kjölfar kaupanna.

Í bréfi eftirlitsins, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er því beint til umræddra félaga að hafa „vakandi auga“ með því hvort í reynd stofnist til yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur í HB Granda þó svo að ekki sé um meirihlutaeignarhald að ræða.

„Dreifing eignarhalds, mæting á hluthafafundum og aðkoma annarra eigenda að stjórnun getur skipt máli í því sambandi,“ segir í bréfi Samkeppniseftirlitsins.

Eins og greint var frá í Markaðinum í sumar upplýsti eftirlitið félögin um að tilkynningarskyldur samruni kynni að hafa átt sér stað þegar Útgerðarfélag Reykjavíkur eignaðist kjölfestuhlut í HB Granda síðasta vor. Sagði eftirlitið að um slíkan samruna gæti verið að ræða þrátt fyrir að fyrrnefnda félagið hefði ekki eignast meirihluta í því síðarnefnda.

Aðalatriðið væri að meta hvort kaupin veittu kaupandanum yfirráð yfir HB Granda, til að mynda hvort hann kæmist í þá stöðu að geta tekið mikilvægar ákvarðanir innan félagsins.

Funduðu með lífeyrissjóðum

Fram kemur í áðurnefndu bréfi að Samkeppniseftirlitið hafi fundað með forsvarsmönnum Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Gildis, en sjóðirnir eru á meðal stærstu hluthafa HB Granda, og spurt þá hvernig hluthafa þeir teldu sig vera í félaginu og jafnframt hvaða áhrif það hefði, að þeirra mati, að aðaleigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur sæti í forstjórastóli félagsins.

Lífeyrissjóðirnir svöruðu því til að þeirra hlutverk væri einna helst að gæta að góðum stjórnarháttum innan HB Granda en þeir kæmu ekki að daglegri stjórnun. Lögðu þeir enn fremur áherslu á mikilvægi þess að hafa kjölfestufjárfesti, líkt og Útgerðarfélag Reykjavíkur, í hluthafahópnum til móts við stofnanafjárfesta. Einnig væri jákvætt fyrir félagið hve umfangsmikla reynslu og þekkingu Guðmundur hefði á sviði sjávarútvegs.

Samkeppniseftirlitið taldi sjónarmið lífeyrissjóðanna geta bent til þess að líta mætti svo á að Útgerðarfélag Reykjavíkur hefði öðlast yfirráð yfir HB Granda á grundvelli sérþekkingar útgerðarfélagsins. Á hinn bóginn sagði eftirlitið ljóst að mæting á hluthafafundi í HB Granda væri góð sem benti til þess að Útgerðarfélag Reykjavíkur kæmi ekki til með að fara með meirihluta atkvæðamagns á slíkum fundum. Aðrir hluthafar gætu því gripið inn í mikilvægar ákvarðanir félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×