Enski boltinn

Með flest varin skot en flest mörkin fengin á sig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Joe Hart á ekki sjö dagana sæla.
Joe Hart á ekki sjö dagana sæla. getty/Chris Brunskill/Fantasista
Lífið leikur ekki við fyrrverandi aðalmarkvörð enska landsliðsins, Joe Hart, þessa dagana en hann stendur í botnbaráttu með Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley.

Hart fékk á sig fimm mörk á móti Gylfa Þór og félögum í Everton í gær en Gylfi sendi Joe Hart í rangt horn þegar að hann skoraði úr vítaspyrnu og kom gestunum úr Bítlaborginni í 3-0.

Sjá einnig:Sjáðu tvennuna hjá Pogba, áttunda mark Gylfa og öll 29 jólamörkin í enska boltanum

Enski markvörðurinn er nú búinn að fá á sig 41 mark, flest allra markvarða í ensku úrvalsdeildinni en mest hefur Hart fengið á sig 42 mörk á heilli leiktíð. Hann er því nokkuð augljóslega að fara að slá það „met“ sitt nema að Burnley haldi hreinu það sem eftir er af tímabilinu.

Burnley-liðið byggði frábæran árangur sinn á síðustu leiktíð á gríðarlega sterkum varnarleik en lærisveinar Sean Dyche fengu aðeins á sig 39 mörk allt síðasta tímabil. Liðið er því nú þegar búið að fá á sig fleiri mörk en í fyrra.

Það er nóg að gera hjá Hart í markinu hjá Burnley því þrátt fyrir að vera búinn að fá á sig flest mörk er hann sá markvörður sem er búinn að verja flest skot í ensku úrvalsdeildinni.

Hart er búinn að verja 76 skot, fimm fleiri en Neil Etheridge, markvörður Cardiff. Almennt eru markverðir botnliðanna ofarlega á þessum lista þar sem að þau eru mikið í vörn en athygli vekur að David De Gea er í fjórða sæti með 64 skot varin.

Joe Hart er búinn að halda fjórum sinnum hreinu í 19 leikjum á tímabilinu en Alisson Becker, markvörður Liverpool, stefnir hraðbyri í átt að gullhanskanum en hann er búinn að halda tólf sinnum hreinu fjórum sinnum oftar en Keba Arrizabalaga, markvörður Chelsea.


Tengdar fréttir

Gylfi sló met Eiðs Smára og Heiðars Helgu

Gylfi Þór Sigurðsson varð um helgina fyrsti íslenski leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem nær því að skora átta deildarmörk fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×