Enski boltinn

Gylfi: Fullkomin leikáætlun hjá Marco Silva

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson spjallar í leyni við Lucas Digne.
Gylfi Þór Sigurðsson spjallar í leyni við Lucas Digne. getty/Chris Brunskill
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði áttunda mark sitt á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á öðrum degi jóla þegar að Everton valtaði yfir Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í Burnley, 5-1.

Sigurinn var fullkomið svar við niðurlægingunni sem Everton mátti þola um síðustu helgi þegar að Tottenham kom í heimsókn í Guttagarð og rassskellti þá bláu úr Bítlaborginni, 6-2.

Gylfi Þór skoraði þriðja mark Everton úr vítaspyrnu og sagði frá því eftir leikinn að Marco Silva talaði við hann eftir að hann brenndi af vítaspyrnu á móti Watford. Hann hefur áfram fullt traust á vítapunktinum.

Íslenski miðjumaðurinn er ánægður undir stjórn Silva og hann var sömuleiðis ánægður með leikáætlun og leikaðferð stjórans á móti Burnley sem stillti upp þriggja manna miðvarðalínu með þá Michael Keane, Kurt Zouma og Jerry Mina í hjarta varnarinnar.

„Þetta var augljóslega öðruvísi leikur með mikið af löngum sendingum þar sem við reyndum að ná seinni boltanum eftir að varnarmennirnir okkar glímdu við þessar háu sendingar,“ sagði Gylfi við heimasíðu Everton eftir leikinn. „Mér fannst þessi leikaðferð og uppstilling henta okkur fullkomlega miðað við hvernig Burnley spilar fótbolta.“

„Við létum vængbakverðina okkar sækja mikið sem að hjálpaði okkur. Ég naut þess að spila þennan leik. Annað væri skrítið þegar að við náum svona úrslitum sem við erum ánægðir með,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir

Gylfi sló met Eiðs Smára og Heiðars Helgu

Gylfi Þór Sigurðsson varð um helgina fyrsti íslenski leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar sem nær því að skora átta deildarmörk fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×