Innlent

Verklag trúnaðarnefnda í vinnslu hjá stjórnmálaflokkum

Sighvatur Jónsson skrifar
Trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar hefur verið í umræðunni vegna máls Ágústar Ólafs Ágústsson þingmanns flokksins.

Vinnulag um trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar var samþykkt á landsfundi flokksins síðastliðið vor. Verklag vegna kvartana á sviði eineltis og áreitni gerir ráð fyrir að erindi geti borist formlega eða í óformlegu samtali.

Kynferðisleg áreitni er skilgreind sem kynferðisleg hegðun með það að tilgangi að misbjóða virðingu viðkomandi. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn eða líkamleg.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft þann háttinn á að kvörtunum um ósæmilega hegðun er vísað til miðstjórnar flokksins en í kjölfar MeToo umræðunnar hefur verið unnið að nýjum reglum og verkferlum.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir leiðir starfið og segir í samtali við fréttastofu að vinna sé langt komin og tillögurnar fari fyrir miðstjórn flokksins á nýju ári.

í lögum Framsóknarflokksins er ákvæði um siðanefnd innan flokksins. Þeim er ætlað að efla traust og tiltrú á störfum einstaklinga sem tala, skrifa eða tjá sig á annan hátt í nafni Framsóknarflokksins. Við alvarlegt brot skal viðkomandi leystur tímabundið undan öllum trúnaðarstörfum flokksins.

Vinstri græn vinna að nýjum reglum og verkferlum í tengslum við kynferðislegt ofbeldi og áreitni. Stefnt er að því að ljúka vinnunni á næsta landsfundi flokksins eftir tæpt ár. Komi mál upp fyrir þann tíma yrði það unnið eftir gildandi reglum af fjögurra manna trúnaðarráði flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×