Innlent

Hælisleitandinn er á vitnalista ákæruvaldsins

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Ráðist var á manninn í íþróttasalnum á Litla-Hrauni.
Ráðist var á manninn í íþróttasalnum á Litla-Hrauni. Vísir/vilhelm
Ungi hælisleitandinn sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Litla-Hrauni fyrr á árinu kemur til landsins til að gefa skýrslu við aðalmeðferð málsins. Honum var vísað úr landi skömmu eftir árásina án vitundar verjanda hans og lögreglumannanna sem fóru með rannsókn málsins.

Maðurinn er á vitnalista ákæruvaldsins, eins og venjan er um brotaþola, og á héraðssaksóknari nú samráð við önnur stjórnvöld, þar á meðal ríkislögreglustjóra, dómsmálaráðuneytið og fulltrúa Íslands hjá Europol, um mögulegan flutning vitnisins til landsins. Aðalmeðferð í málinu átti að hefjast í Héraðsdómi Suðurlands í gær en var frestað meðal annars vegna þess að annar tveggja ákærðu, Baldur Kolbeinsson, mætti ekki til aðalmeðferðar. Hann lauk afplánun sinni fyrir nokkru og er frjáls ferða sinna.

Ákæra gegn Baldri og Trausta Rafni Henrikssyni tekur til alvarlegustu gerðar líkamsárásar í almennum hegningarlögum; 2. mgr. 218. gr.

Meðal gagna í málinu er upptaka af árásinni úr öryggismyndavél en ráðist var að manninum í íþróttasal fangelsisins. Árásin er sögð hafa verið sérlega hrottafengin. Baldur hefur ekki tekið afstöðu til ákærunnar en Trausti neitar sök.

Baldur var var árið 2014 dæmdur fyrir tvær líkamsárásir á útivistarsvæðinu á Litla-Hrauni, annars vegar fyrir að hafa veist að samfanga sínum, makað saur í andlit hans og munn og slegið hann svo bæði í höfuð og líkama og hins vegar fyrir að hafa sparkað ítrekað og slegið samfanga sinn í höfuð og líkama með hengilás og hnúajárni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×