Innlent

Samkomulag náðist um að ljúka samgönguáætlun á nýju ári

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Vísir/vilhelm
„Ég hef fullan skilning á því og þess vegna er það auðvitað frábært að við náðum samkomulagi í gær, formenn flokkanna, að ljúka samgönguáætlun fyrir 1. febrúar á næsta ári,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, í Bítinu á Bylgjunni í morgun aðspurður um hvort ekki þyrfti að ræða betur þær breytingartillögur við samgönguáætlun sem fela í sér að lagðir verða veggjöld á ýmsar leiðir hér á landi.

Það er því ljóst að ekki verður tekin ákvörðun um veggjöld að sinni en það ætlaði allt um koll að keyra á Alþingi í gær þegar rætt var um breytingartillögur umhverfis og samgöngunefndar á samgönguáætlun. Fjölmargir þingmenn stjórnarandstöðunnar sökuðu meirihlutann á þingi um að vilja keyra samgönguáætlunina í gegn á Alþingi fyrir jólafrí án nokkurs samráðs við stjórnarandstöðuna.

Sjá einnig:Veggjöld - Bákn í bákninu eða jákvætt og lofandi mál

„Þannig að það gefist meiri tími til þess að ræða málið í þinginu. Samkvæmt starfsáætlun þingsins eru einir sex fundadagar í janúar og það voru bara allir tilbúnir til þess að fara þessa leið og ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að halda hópinn í þessari kerfisbreytingu því að hún er varanleg til langs tíma,“ sagði Sigurður Ingi.

Veggjöld yrðu tekin upp á öllum stofnbrautum til og frá Reykjavík og í öllum jarðgöngum landsins samkvæmt breytingartillögunni.

„Ég held að þetta sé mjög góð lending af hálfu þingsins og geri það að verkum að vonandi verður umræðan meira yfirveguð en var svona síðasta sólarhringinn,“ sagði Sigurður Ingi.

Hlusta má á viðtalið við hann í heild sinni hér að neðan. Þar fer Sigurður Ingi nánar út í röksemdirnar fyrir því að taka upp veggjöld á völdum leiðum.


Tengdar fréttir

Vegtollar og aukin vegagerð á hraðferð í gegnum Alþingi

Veggjöld verða tekin upp á stofnbrautum út frá Reykjavík og í jarðgöngum landsins, og framkvæmdir í samgöngumálum stórauknar, samkvæmt breytingartillögu við samgönguáætlun, sem gæti hlotið samþykki Alþingis fyrir lok vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×