Umfjöllun og viðtöl: KR - ÍR 71-69 │Jón Arnór kláraði ÍR

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/bára
KR og ÍR áttust við í Reykjavíkurslag í 10.umferð Domino’s deild karla í DHL-höllinni í kvöld. Eftir æsispennandi lokamínútur náðu KR-ingar að kreista fram sigurinn, 71-69.

ÍR-ingar byrjuðu mikið betur en KR-ingar og komust í 6-0 og síðan 16-2 áður en KR-ingar fóru að saxa á forskot þeirra. Staðan að loknum fyrsta leikhluta, 17-24, gestunum í vil.

KR var í vandræðum í fyrri hálfleik með skotin sín en þeir voru hinsvegar duglegir að fara á vítalínuna og hittu vel þar. Þeir reyndu að minnka muninn en ÍR-ingar náðu alltaf að halda þeim í góðri fjarlægð. Staðan í hálfeik, 39-48, ÍR í vil.

Það var ljóst að það þyrfti mikið að breytast í síðari hálfleik ef KR ætlaði sér að fá eitthvað úr þessum leik og til að byrja með var ekki mikið sem benti til þess að þeir myndu sigra þennan leik en það má aldrei afskrifa Íslandsmeistarana!

Þeir tóku gott áhlaup í þriðja leikhluta og náðu að minnka muninn niður í 2 stig undir lok leikhlutans. Julian Boyd og Emil Barja kveiktu í stúkunni þegar þeir tóku glæsilega alley-oop körfu! ÍR-ingar urðu fyrir áfalli þegar þeir misstu Daða Berg Grétarsson af velli en það leit út fyrir að hann hefði tognað aftan í læri.

Það sást á ÍR-ingum í fjórða leikhluta að þeir voru orðnir þreyttir en þeir gáfu allt í þennan leik á meðan KR gekk bölvanlega að komast yfir. ÍR náði alltaf að setja körfur þegar þeir þurftu og náðu að halda þessu jöfnu alveg fram á lokamínútuna.

Þá hinsvegar gekk ekkert upp hjá ÍR og Jón Árnór Stefánsson kom KR yfir, 71-69 þegar 30 sekúndur voru eftir. ÍR fengu boltann, Hákon Örn Hjálmarsson fór upp í sniðskot en Kristófer Acox blokkaði skotið frábærlega. ÍR hélt þó boltanum og endaði á því að taka erfiðan þrist sem rataði því miður fyrir þá ekki ofan í körfuna! KR náði að tryggja sér sigurinn eftir að hafa verið undir nánast allan leikinn.

Af hverju vann KR?

Reynslan er auðvelda svarið. Jón Arnór Stefánsson ásamt Kristófer Acox og fleirum hafa svo mikla reynslu í svona leikjum og það skilaði sér í kvöld! Þeir hertu vörnina í seinni hálfleik og fengu aðeins á sig 21 stig seinustu 2 leikhlutana.

Að auki má segja að ÍR-ingar hafi verið klaufar en þeir hittu ekki einu einasta þriggja stiga skoti í síðari hálfleik og hittu aðeins 10 af 20 vítaskotum sínum í leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá heimamönnum var Jón Arnór stigahæstur en hann skoraði 14 stig þar af 7 vítalínunni, hann var ekki að hitta vel en skilaði samt sínu. Bætti síðan við 8 stoðsendingum. Kristófer Acox var einnig drjúgur en hann skilaði 13 stigum og 13 fráköstum!

Hjá ÍR-ingum var Justin Martin stigahæstur en hann skoraði 25 stig, þar af 19 í fyrri hálfleik en hann varð fyrir einhverju hnjaski í seinni hálfleik og var í vandræðum framan af. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 15 stig og 10 fráköst og Hákon Örn með 15 stig.

Hvað gekk illa?

Hittni liðanna var ekkert til að hrópa fyrir. Sérstaklega voru ÍR-ingar slakir í seinni hálfleik en þeir hittu ekki einu þriggja stiga skoti í 12 tilraunum.

Að auki settu þeir aðeins niður 10 af 20 vítaskotum sem er alls ekki nógu gott. Bekkurinn hjá ÍR skilaði ekki nema 4 stigum sem er einnig alltof lítið í svona leik.

Julian Boyd hjá KR var í tómu tjóni í fyrri hálfleik með einungis 2 stig og 2 fráköst á 14 mínútum en hann lagaði þetta aðeins í seinni hálfleik en lenti í villuvandræðum, hann endaði leikinn með 10 stig og 2 fráköst sem er engan veginn nógu gott.

Hvað gerist næst?

Það er þétt spilað en bæði lið eiga bikarleik á laugardaginn en ÍR-ingar taka á móti ÍA í Hertz hellinum. KR-ingar mæta hinsvegar B-liði félagsins í áhugaverðum leik fyrir stuðningsmenn félagsins.

Bæði lið eiga síðan eftir einn deildarleik fyrir jól en ÍR-ingar taka á móti Grindavík næstkomandi miðvikudag á meðan KR-ingar fara í Smárann og mæta Blikum næstkomandi fimmtudag.

Ingi Þór: Virðingarleysi að byrja svona

Ingi Þór Steinþórsson þjálfari KR var gífurlega ánægður með sigur liðsins gegn ÍR eftir erfiðan fyrri hálfleik þar sem þeir voru undir á flestum sviðum leiksins.

„Alveg gríðarlega erfiður sigur og ég er fáranlega ánægður með sigurinn. Ég veit ekki hvort að fólk geri sér grein fyrir því en þeir eru annan leikinn í röð í mikilli stöðubaráttu og eins og við byrjum og spilum framan af þá er ég bara mjög ánægður að við höldum loksins haus og náum að snúa þessu í vörn og vinna leikinn á geggjuðum varnarleik.”

„Við höldum ÍR í rétt rúmum 20 stigum í seinni hálfleik og það er mjög gott. Við höfum verið ósáttir við varnarleikinn og mistökin í varnarleiknum en í kvöld náðum við að minnka þau gríðarlega en byrjun var alls ekki nógu góð.”

Hann sagði að rangar ákvarðanir í byrjun leiks hafi gert það að verkum að ÍR náði að komast 16-2 yfir.

„Þeir hitta fjórum fyrstu skotunum sínum og þá ætlum við að svara með erfiðum skotum en við fengum skot undir körfunni sem menn eiga auðvitað að klára og þetta var bara einbeitingarleysi og virðingarleysi við okkur sjálfa að koma svona til leiks. Ef þú virðir ekki sjálfan þig og kemur ekki grimmur til leiks þá ertu jarðaður. Það var það sem ÍR-ingar gerðu í byrjun.”

Þeir vissu af veikleikum ÍR-inga undir körfunni og því var lagt upp með það að keyra á körfuna sem útskýrði vítafjöldann sem KR-ingar fengu í fyrri hálfleik.

„Við vorum búnir að teikna það upp að ráðast á þá, það er veikleiki hjá ÍR að vörn þeirra er veik fyrir þannig planið var að sækja víti. Við vorum duglegir að gera það.”

„Jón Arnór átti ekkert frábæran skotdag en hann er leiðtogi og síðan koma aðrir sterkir inn. Boyd var ekki með í dag fyrir utan smá kafla í seinni hálfleik þar sem hann gaf tóninn í endurkomunni en Jón sýndi leiðtogahæfileika sína þegar á reyndi,” sagði Ingi varðandi mikilvægi Jóns Arnórs.

Hann var mjög ánægður með framlag sinna manna en bekkurinn var sterkur í seinni hálfleik.

„Við erum með fullt af strákum sem kunna að spila körfubolta og meir að segja leikmenn á bekknum sem koma ekkert inn á. Þeir eiga vera drullufúlir og eiga bara að koma á næstu æfingu og sýna að þeir eigi að fá að spila.”

„Þannig er hópurinn okkar, við erum með marga leikmenn og við þurfum framlag frá meira en 2-3 mönnum og menn stigu upp í seinni hálfleik,” sagði Ingi Þór að lokum.

Borche: Stoltur af baráttunni í strákunum

Borche Ilievski þjálfari ÍR var mjög svekktur en hans menn voru óheppnir að vinna ekki KR í kvöld.

„Eins og gegn Njarðvík þá vissi ég að þetta myndi ráðast í lokin. Undirbúningurinn og það sem var lagt upp með fyrir leik var að virka meira og minna en stundum förum við út úr því sem lagt var upp með.”

„Kannski, ef Gerald skorar þessa auðveldu körfu þá komumst við 5 stigum yfir og þá kannski endar þetta öðruvísi. Við fengum marga sénsa en þetta gekk ekki. Við erum að læra.”

„Við erum með ungt lið fyrir utan þessa þrjá (Sigurður Gunnar, Gerald og Justin) og núna missum við Daða (Daði Berg Grétarsson) í meiðsli og erum þegar án Matta (Matthías Orri Sigurðarson) en ég er stoltur af strákunum hvernig þeir börðust bæði í kvöld og gegn Njðarvík í seinasta leik.

„Kannski áttu þeir skilið sigurinn eða kannski áttum við hann skilið en hver veit þeir voru líklegri í lokin,” sagði Borche varðandi hvað klikkaði í lokin.

Hann var ánægður með byrjunina hjá liðinu en var á móti kemur ekki sáttur með dómgæsluna að því leyti að snemma í leiknum voru þeir búnir að fá 10 villur dæmdar á sig á móti 2 hjá KR.

„Við spiluðum mjög klókt og KR lyfti þessu upp í meiri hörku sérstaklega í öðrum leikhluta. Dómararnir eru að dæma 10-2 í villum gegn okkur. Sumt er rétt og sumt ekki. En eins og ég sagði þá er ég ekki sáttur með tapið en ég er mjög ánægður með hvernig við lögðum upp leikinn og gáfum allt í hann. Það vantar breidd og meiri reynslu.”

Varðandi vítanýtingu liðsins sagði hann að þetta er stór hluti af tapi liðsins þegar vítin fara svona mörg forgörðum.

„Ég sá ekki alveg tölfræðina með vítin en ef við hittum bara 10 af 20 þá er það klárt mál að það er stór hluti af leiknum. Oft eru það vítin sem skila sigri en í kvöld klikkaði það og við verðum að nýta þau betur,” sagði Borche að lokum.

Sigurður Gunnar: Hef engar áhyggjur af framhaldinu

Sigurður Gunnar Þorsteinsson leikmaður ÍR var svekktur eftir tap gegn KR í hörkuleik í DHL höllinni í kvöld.

„Það var eiginlega bara allt held ég, nema vörnin. Hún var allt í lagi í seinni hálfleiknum. Vítaskotin og þriggja stiga skotin voru ekki að fara niður og það klikkaði nánast allt sóknarlega. KR fór að spila fast og gerðu það vel og við leyfðum það,” sagði Siggi varðandi vandræði liðsins í seinni hálfleik.

Hann var þó mjög sáttur með hvernig liðið byrjaði leikinn en þeir hófu leikinn af miklu krafti og náðu að komast í 16-2.

„Við byrjuðum mjög sterkt en auðvitað koma KR til baka eins og við mátti búast en við komumst í góða stöðu í hálfleik en ég veit ekki hvað gerðist, við hættum bara í seinni hálfleik”

Hann hefur þó engar áhyggjur af framhaldinu hjá liðinu en þeir eru að glíma við meiðsli og eru ekki langt frá fallsæti.

„Nei ég hef engar áhyggjur, við þurfum bara að klára leiki. Það vantar hjá okkur, það vantaði gegn Njarðvík og það vantaði hérna. Það vonandi lærist núna.”

„Nú er bara bikarleikur á laugardaginn sem við ætlum að klára og síðan deildarleikur fyrir jól sem við ætlum líka að klára,” sagði Sigurður Gunnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira