Enski boltinn

Claude Puel: Riyad Mahrez á skilið að fá góðar mótttökur á King Power í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Riyad Mahrez.
Riyad Mahrez. Vísir/Getty
Riyad Mahrez verður í sviðsljósinu í kvöld þegar Englandsmeistarar Manchester City heimsækja í Leicester City í átta liða úrslitum enska deildarbikarsins.

Manchester City keypti Riyad Mahrez frá Leicester City fyrir 60 milljónir punda í sumar en í janúar fór Riyad Mahrez í tíu daga „verkfall“ til að reyna að þvinga fram söluna til City.

Riyad Mahrez var einn af aðalmönnunum þegar Leicester City vann enska meistaratitilinn vorið 2016. Hann skoraði alls 42 mörk í 179 leikjum fyrir félagið.

Claude Puel, knattspyrnustjóri Leicester City í dag, hefur talað fyrir því að stuðningsmenn félagsins taki vel á móti Riyad Mahrez í kvöld.

„Riyad gerði sitt besta fyrir félagið á meðan hann var hér,“ sagði Claude Puel.





„Ég vona að hann geti komið hingað aftur, sitji á bekknum og allt verði í góðu milli hans og fólksins,“ sagði Puel. Líklegra verður þó að telja að Pep Guardiola setji Riyad Mahrez í byrjunarliðið sitt.

„Hann var mikilvægur hluti af liðinu sem vann titilinn og við megum ekki gleyma því sem hann gerði fyrir félagið. Ég vona að hann fái góðar mótttökur,“ sagði Puel.

Mahrez vann sér ekki inn miklar vinsældir þegar hann fór í umræddar verkfallsaðgerðir til þess að komast í burtu frá Leicester City.

„Ég reyndi að vinna með hann en það var mjög erfitt tímabil í vetrarglugganum þegar hann vildi fara. Þetta var erfitt mál gagnvart stuðningsmönnunum, gagnvart félaginu og gagnvart liðsfélögunum. Það var mikilvægt að koma honum í gegnum þetta,“ sagði Puel.

„Hann fékk tíma til loka tímabilsins eftir að hann kom aftur til baka. Hann gerði sitt besta og skoraði mikilvæg mörk fyrir félagið,“ sagði Puel.

Leikur Leicester og Manchester City hefst klukkan 19.45 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×