Enski boltinn

Blaðamönnum L'Équipe vísað á dyr á blaðamannafundi PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar Jr og Kylian Mbappe fagna marki með PSG.
Neymar Jr og Kylian Mbappe fagna marki með PSG. Vísir/Getty
L'Équipe er stærsta og virtasta íþróttablað Frakka en það fær ekki lengur að mæta á blaðamannafundi Paris Saint-Germain ef marka má fréttaflutning blaðsins.

L'Équipe segir frá því að blaðamönnum L'Équipe hafi verið vísað á dyr á blaðamannafundi PSG fyrir bikarleik á móti Orléans en fundurinn fór fram í gær.

L'Équipe þykir miður að forráðamenn Paris Saint-Germain skuli haga sér svona en að blaðið ætli samt að halda áfram að færa lesendum sínum fréttir af Paris Saint-Germain liðinu.

Menn rekja þessar aðgerðir Paris Saint-Germain til greinar sem birtist um félagið í L'Équipe á dögunum.





L'Équipe var þá að fjalla um stöðu franska liðsins gagnvart rekstrarreglum UEFA og sló því upp að PSG gæti þurft að selja stórstjörnurnar Kylian Mbappé og Neymar vegna brota á reglum um rekstur fótboltafélaga.

Það hefur verið kergja í samskiptum PSG og L'Équipe í framhaldinu og blaðamenn L'Équipe hættu að spyrja spurninga á blaðamannafundi fyrir leik liðsins á móti Rauðu Stjörnunni í Meistaradeildinni í síðustu viku.

Margir hafa velt fyrir sér hvernig Paris Saint-Germain geti eytt stjarnfræðilegum upphæðum í marga af bestu knattspyrnumönnum heims án þess að brjóta fyrrnefndar rekstrarreglur UEFA.





Fótboltafélög verða að sýna fram á tekjur til að vega upp á móti eyðslu sinni í leikmenn, laun og fleira.  

Blaðamenn L'Équipe fengu því ekki tækifæri til að spyrja þjálfara og leikmann Paris Saint-Germain um komandi leiki við Manchester United í Meistaradeildinni en félögin drógust saman í sextán liða úrslitunum þegar dregið var í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×