Innlent

Flugvél snúið aftur til Keflavíkur vegna gruns um bilun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Engan sakaði um borð að sögn Guðjóns Helgasonar hjá Isavia.
Engan sakaði um borð að sögn Guðjóns Helgasonar hjá Isavia. Vísir/Vilhelm
Einkaflugvél sem tók á loft frá Keflavíkurflugvelli eftir hádegi í dag þurfti að snúa við og lenda aftur í Keflavík eftir að grunur vaknaði um bilun í nefhjóli vélarinnar. Þetta staðfestir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við Vísi.

Guðjón segir að fimm hafi verið um borð í flugvélinni sem lenti aftur á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir klukkan 14 í dag. Að sögn Guðjóns vaknaði grunur um að nefhjól flugvélarinnar væri í ólagi þegar vélin var nýkomin í loftið. Flugvélin hringsólaði í nokkurn tíma til að klára eldsneyti áður en henni var lent.

Að sögn Guðjóns sakaði engan um borð. Ekki fengust upplýsingar um það hvort atvikið flokkaðist sem öryggislending. Þá segir Guðjón einhvern viðbúnað hafa verið á flugvellinum vegna atviksins.

Uppfært klukkan 14:37:

Flugvélin, sem er sjúkraflugvél, var enn á flugbrautinni á þriðja tímanum að sögn Guðjóns en verður dregin í stæði. Rannsóknarnefnd samgönguslysa er komin á vettvang og rannsakar m.a. hvort skemmdir hafi orðið á nefhjólinu við lendingu. Flugbrautin er lokuð sem stendur en Guðjón segir þó engar tafir hafa orðið á Keflavíkurflugvelli vegna þessa.

Flugvélin var á leið til Goosebay í Kanada þegar henni var snúið við en Guðjón segir þó að hvorki hafi verið um bráðatilfelli né sjúkraflutning að ræða. Guðjón veit jafnframt ekki betur en að flugið sé á vegum erlendra rekstraraðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×