Enski boltinn

Staðfestu Solskjær sem nýjan stjóra United á heimasíðunni en tóku það svo út

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær og sjálfur Rauði djöfullinn.
Ole Gunnar Solskjær og sjálfur Rauði djöfullinn. Vísir/Getty
Það virðist fátt koma í veg fyrir það að Ole Gunnar Solskjær taki við sem knattspyrnustjóri Manchester United fram á vor.

Manchester United staðfesti það meira segja tímabundið í frétt á heimasíðu sinni sem var greinilega samt sett inn fyrir mistök því hún var seinna tekin aftur út.





Í myndbandi inn á heimasíðu Manchester United þá var Ole Gunnar Solskjær staðfestur með því að sýna myndband af því þegar hann skoraði sigurmarkið í Meistaradeildinni 1999 og undir stóð:

„Solskjær verður stjórinn okkar tímabundið tuttugu tímabilum eftir að hann innsiglaði þrennuna með þessu marki á Nou Camp“

Myndbandið átti greinilega ekki að fara inn strax því það var tekið út aftur.

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, óskaði Solskjær góðs gengis á samfélagsmiðlum með því að skrifa: „Frábær dagur fyrir norskan fótbolta. Gangi þér vel að stjórna Rauðu djöflunum,“ skrifaði Erna Solberg en eyddi því seinna út.

Ole Gunnar Solskjær tekur við United-liðinu tímabundið en Jose Mourinho var rekinn í gær eftir verstu byrjun liðsins frá 1991.





Solskjær er 45 ára gamall og starfar sem þjálfari Molde í Noregi. Norska deildin byrjar þó ekki aftur fyrr en í mars

Fyrsti leikur Ole Gunnar Solskjær gæti verið á móti Cardiff City á laugardaginn en Solskjær var einmitt stjóri Cardiff þegar liðið féll síðast úr ensku úrvalsdeildinni árið 2014.

Ole Gunnar Solskjær hefur verið þjálfari Molde frá 2015 og skrifaði undir nýjan samning fyrr í þessum mánuði.

Solskjær skoraði 126 mörk á ellefu tímabilum sem leikmaður Manchester United en hann varð sex sinnum enskur meistari með félaginu og starfaði seinna sem þjálfari varaliðs félagsins í þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×