Erlent

Skilaboðum evrópskra erindreka stolið í tölvuinnbroti

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel.
Frá höfuðstöðvum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. Vísir/EPA
Tölvuþrjótum tókst að brjótast inn í fjarskiptakerfi Evrópusambandsins og hafa stolið þúsundum skilaboða undanfarin ár. Aðferðirnar sem hakkararnir notuðu eru sagðar líkjast þeim sem kínverski herinn hefur beitt.

Skilaboðin hafa verið birt á netinu en í þeim er meðal annars að finna skilaboð frá evrópskum erindrekum þar sem þeir lýsa áhyggjum af Donald Trump Bandaríkjaforseta, kjarnorkusamningnum við Íran og glímu sinni við rússnesk og kínversk stjórnvöld, að sögn New York Times.

Í einum skilaboðunum lýsir evrópskur diplómati fundi Trump og Vladímírs Pútín Rússlandsforseta í sumar þannig að hann hafi verið „árangursríkur (að minnsta kosti fyrir Pútín)“.

Hakkararnir eru einnig sagðir hafa brotist inn í samskipti Sameinuðu þjóðanna og AFL-CIO, einna stærstu verkalýðssamtaka Bandaríkjanna, alls um hundrað samtaka. Innbrotin virðast hafa átt sér stað fyrir nokkrum árum en mörg samtakanna vissu ekki af þeim fyrr en fyrir nokkrum dögum.

Viðkvæmustu og leynilegustu samskipti Evrópusambandsins fóru fram í gegnum aðrar rásir og virðast þrjótarnir ekki hafa náð til þeirra. Evrópusambandið er sagt hafa verið ítrekað varað við því að fjarskiptakerfi þess væri orðið úrelt og hætt við árásum. Það er nú sagt vinna að því að uppfæra kerfin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×