Enski boltinn

Jóhann Berg snéri aftur í tapi

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Jóhann Berg er kominn aftur eftir meiðsli
Jóhann Berg er kominn aftur eftir meiðsli vísir/getty
Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson snéri aftur í lið Burnley eftir meiðsli er liðið tapaði gegn Crystal Palace.



Jóhann Berg var mættur aftur á kantinn í byrjunarliði Burnley en það kom ekki að sök þegar Crystal Palace vann þægilegan 2-0 sigur. James McArthur og Andros Townsend skoruðu mörk Cyrstal Palace.



Sigurinn var þýðingarmikill fyrir Palace en þeir eru nú komnir þremur stigum frá fallsæti. Burnley er hins vegar í fallsæti, einu stigi frá öruggu sæti.



Huddersfield byrjaði af krafti gegn Brighton á heimavelli og komst yfir strax á 1. mínútu leiksins. Markið skoraði Mathias Jorgensen.



Leikurinn breyttist hins vegar til muna þegar Steve Mounie fékk beint rautt eftir ljótt brot. Brighton nýttu sér liðsmuninn en Shane Duffy jafnaði leikinn á lokamínútu fyrri hálfleiks. Florin Andone skoraði svo sigurmark Brighton á 69. mínútu.



Brighton siglir lygnan sjó um miðja úrvalsdeildina en Huddersfield er í bullandi fallbaráttu, í 17. sæti, einu stigi frá fallsæti.



Leicester fékk Watford í heimsókn og byrjuðu heimamenn af krafti. Jamie Vardy skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu á 12. mínútu. Rúmum tíu mínútum síðar tvöfaldaði James Maddison forystu Leicester. Reyndust það vera lokatölur og Leicester komið í 7. sæti deildarinnar. Watford er dottið niður í 10. sæti eftir góða byrjun.



Mexíkóinn Javier „Chicharito“ Hernandez skoraði tvö mörk í góðum útisigri West Ham á Newcastle.



Felipe Anderson innsiglaði svo sigur West Ham með marki í uppbótartíma, lokatölur 3-0 og West Ham komið upp í 13. sæti deildarinnar með 15 stig. Newcastle er sæti neðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×