Erlent

Ekki kynþáttaníð að vera kölluð kíví

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Konan, sem sést ekki á myndinni, var ósátt við að vera líkt við kíví-fugl.
Konan, sem sést ekki á myndinni, var ósátt við að vera líkt við kíví-fugl. Getty/ullstein bild
Nýsjálenskri konu tókst ekki að sannfæra ástralskan dómstól um að hún hafi mátt þola kynþáttaníð af hendi samstarfsfólks síns, sem á að hafa kallað hana „kíví.“

Konan, Julie Savage, segir að viðurnefnið hafi haft slík áhrif á sig að hún hafi neyðst til að segja starfi sínu lausu, en hún var yfirmaður í bakaríi í áströlsku borginni Adelaide fram til ársins 2016. Hún hafi því ákveðið að leita réttar síns og fá staðfestingu á því að kíví-stimpillinn væri í raun rasískur og gerði lítið úr nýsjálenskum uppruna hennar.

Dómstóll í suðurhluta Ástralíu var þó ekki tilbúinn að fallast á það. Konan hafi ekki mátt þola ósanngjarna meðferð eða kynþáttaníð á vinnustaðnum. Þvert á móti væri viðurnefnið eitthvað sem Nýsjálendingar notuðu sjálfir um sig og væri alla jafna til marks um væntumþykju. Ekki væri að sjá að nein lög hefðu verið brotin.

„Það að kalla Nýsjálending kíví er ekki móðgun í sjálfu sér. Kíví er ekki mógðun,“ er haft eftir dómaranum, Leonie Farrel, á vef breska ríkisútvarpsins.

Þar segir jafnframt að Kívi vísi til litla, ófleyga fuglsins sem finnst á Nýja-Sjálandi, en ekki loðna ávaxtarins sem ber sama nafn.

Eigandi umrædds bakarís fagnaði að vonum sigri og segir dómstólinn hafa komist að réttri niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×