Innlent

Fyrstu flugfreyjur í sögu Ernis í fyrsta áætlunarflugi Dornier

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugfreyjurnar Unnur Gunnarsdóttir og Ásbjörg Morthens í Dornier-vélinni fyrir brottför síðdegis. Þær voru tvær í þessari fyrstu áætlunarferð en jafnan verður ein flugfreyja um borð í þessari 32 sæta vél.
Flugfreyjurnar Unnur Gunnarsdóttir og Ásbjörg Morthens í Dornier-vélinni fyrir brottför síðdegis. Þær voru tvær í þessari fyrstu áætlunarferð en jafnan verður ein flugfreyja um borð í þessari 32 sæta vél. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Þáttaskil urðu í sögu Flugfélagsins Ernis nú síðdegis þegar stærsta og hraðfleygasta vél félagsins fór í sitt fyrsta áætlunarflug, en hálft ár tók að skrá vélina hérlendis. Þetta var jafnframt í fyrsta sinn sem flugfreyjur voru um borð í vél félagsins. Rætt var við þær og myndir sýndar af fyrsta flugtakinu í fréttum Stöðvar 2.

 

Dornier-skrúfuþotan skömmu fyrir brottför á Reykjavíkurflugvelli síðdegis.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Ernir fékk Dornier-skrúfuþotuna til landsins í lok maímánaðar og stefndi að því að taka hana í notkun í júní. Því fylgdi hins vegar afar flókin pappísvinna að skrá vélina, eins og heyra má í viðtali við eigendur Ernis, hjónin Hörð Guðmundsson og Jónínu Guðmundsdóttur.

Eigendur Flugfélagsins Ernis, hjónin Hörður Guðmundsson og Jónína Guðmundsdóttir.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Fyrstu flugfreyjur Ernis heita Unnur Gunnarsdóttir og Ásbjörg Morthens. Unnur var áður í millilandaflugi hjá Icelandair og Ásbjörg hjá Wow-air. Þær þekkja vélina vel eftir þjálfun í Þýskalandi í sumar og segja mjög spennandi að færa sig yfir í innanlandsflugið og taka þátt í þessu verkefni með Erni.

Dornier-skrúfuþotan í flugtaki á Reykjavíkurflugvelli síðdegis.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Flugstjóri í þessari fyrstu áætlunarferð var Þráinn Hafsteinsson en áfangastaðurinn var Húsavík. Flugtíminn þangað var áætlaður um 35 mínútur, tíu til tólf mínútum styttri en á eldri Jetstream-vélum félagsins. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2: 


Tengdar fréttir

Hörður kaupir 32 sæta hraðfleyga skrúfuþotu

Flugfélagið Ernir hefur keypt 32 sæta hraðfleyga skrúfuþotu. Eigandinn, Hörður Guðmundsson, stefnir á tvær til þrjár slíkar, bæði til nota á innanlandsleiðum og í leiguflugi til nágrannalanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×