Innlent

Nágrannar fengu lögbann á fyrirhugað vistheimili

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þingvað 35, þar sem fyrirhugað vistheimili átti að vera staðsett.
Þingvað 35, þar sem fyrirhugað vistheimili átti að vera staðsett. Vísir/Vilhelm
Íbúar í nágrenni húss í Þingvaði í Norðlingaholti þar sem til stóð að reka vistheimili fyrir börn með áhættuhegðun og í vímuefnavanda hafa fengið lögbann á starfsemina. Ekkert verður því af því að vistheimilið verði opnað í húsinu. Mbl.is greinir frá.

Töluvert var fjallað um málið í vor þegar greint var frá því að til stæði að opna vistheimilið. Íbúasamtök í Norðlingaholti gagnrýndu þá barnaverndaryfirvöld og félagsmálaráðherra vegna þess sem þeir töldu vera samráðsleysi vegna málsins.

Stefnt var að því að um tvö til þrjú ungmenni hafi átt að vera í húsinu á hverjum tíma. Öll áttu þau að eiga það sameiginlegt að hafa lokið mörgum meðferðum og þurfa aðstoð við að fóta sig í lífinu á ný.

„Þetta eru krakkar sem geta eða eiga ekki að vera langdvölum inni á meðferðarheimilum. Þetta er stuðningsheimli með eftirmeðferð, fyrir börn sem eru ekki í neyslu,“ sagði Halldór Hauksson, sviðstjóri hjá Barnaverndarstofu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í apríl.

Sjá einnig: „Mikilvægt fyrir ungmennin að búa á eðlilegu heimili“

Formaður Íbúasamtaka Norðlingaholts sagðist hins vegar hafa samúð með börnunum en að fólk vildi ekki börn með alvarlegan fíkniefnavanda í hverfið. Á vef Mbl.is segir að sýslumaður hafi samþykkt lögbannskröfu íbúanna í nágrenni hússins síðastliðinn föstudag. Barnaverndarstofa hefur ekki hug á því að freista þess að hnekkja lögbanni og því er útlit fyrir að vistheimilið verði ekki rekið í húsinu sem um ræðir.

„Lögbannið byggir á gríðarlegum misskiln­ingi á eðli starfseminnar. Hins vegar liggur einnig fyrir að það myndi taka marga mánuði að fá lögbanninu hnekkt fyrir dómi og að stofan myndi innan þess tíma missa húsnæðið. Því hefur Barnaverndarstofu ekki forsendur fyrir því að mótmæla lögbanninu fyrir dómi,“ er haft eftir Heiðu Björgu Pálmadóttur, forstjóra Barnaaverndarstofu á mbl.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×